Hugur - 01.01.2014, Síða 82
82 Sigurjón Árni Eyjólfsson
1.4. Tilvist, frelsi og ábyrgð
Samkvæmt Beauvoir upplifir maðurinn sig ekki sem frjálsa sjálfráða veru sem
getur mótað líf sitt eftir eigin höfði, heldur lifir hann í þverstæðufullum veruleika.
Honum er hent (þ. Geworfensein) inn í tilveru sem er lítt á hans valdi og því
gengur hann ekki að neinum tilgangi vísum með tilvist sinni.39 Manninum er
m.ö.o. varpað inn í aðstæður sem hann hefur ekki valið sér og er dæmdur til að
„yfirstíga“ þær með því að veita sjálfur svör við þeim spurningum er hún vekur.40
Hann verður að ljá tilveru sinni og heimi merkingu sína. Þar með er það ekki
veruleikinn eða „það sem er“ sem veitir svarið, heldur „það sem getur orðið“ eða
hugsanlegir möguleikar. Maðurinn getur nýtt sér það til að yfirstíga (fr. trans-
cender) hið gefna eða íveruna og staðsett sig í handanverunni eða stefnt að hinu
óorðna. Að mati Beauvoir er tilvistin því yfir hið gefna sett. Maðurinn á að víkka
út eigin mörk, hann er ekki vera þess sem er heldur hins mögulega. Í inngangi að
Hinu kyninu skilgreinir Beauvoir þessa stöðu svo:
Með hlutbundnum fyrirætlunum sínum byggir hver sjálfsvera sér
handan veru (transcendance); hún fullkomnar ekki frelsi sitt nema með
því að vera sífellt að fara fram úr því til að öðlast annað frelsi. Ekkert
réttlætir tilveru hennar nú nema hún þenji sig í átt að óendanlegri op-
inni framtíð. Í hvert skipti sem handanveran verður að íveru (immanence)
rýrnar gildi tilvistarinnar og verður að „í sér“ – þ.e. á valdi ytri aðstæðna
[…]. Hver einstaklingur […] finnur […] fyrir óskilgreindri þörf til að
víkka út eigin mörk […]. En það sem skilgreinir á einstakan hátt stöðu
konunnar er að þótt í henni búi sjálfstætt frelsi, eins og í öllum mann-
eskjum, þá uppgötvar hún sig og velur að vera það sem hún er, í heimi þar
sem mennirnir neyða hana að axla hlutverk Hins.41
Meinið er að mati Beauvoir að konan er hér skilgreind út frá því sem er, sem lagt
er að jöfnu við hamingjuna, í stað þess sem er verðandi og tengist frelsinu. Mað-
urinn er verðandi, opin og ófullgerð vera möguleika. Það er andstætt „eðli“ hans,
ef nota má hugtakið í þessu samhengi, að binda tilvist sína því sem er fyrirfram
gefið, hvort sem það er stétt, staða, kyn o.s.frv. Að mati Beauvoir verður konan
að axla byrði tilvistar sinnar í þverstæðufullum veruleika sem henni er varpað inn
í og þá sem veru mögulegrar framtíðar. Þessi staða hennar krefst baráttu við það
sem bindur hana við það sem er.42 Sem einstaklingur verður konan að skapa sér
eigin tilvist innan þeirra möguleika sem hún hefur. Tilgang lífs síns finnur hún
39 Beauvoir 2012a: 878.
40 Sartre 2007: 12.
41 Beauvoir 1999: 43–44.
42 „Það er reynt að binda hana í stöðu hlutveru, neyða hana til íveru. Handanvera hennar verður
alltaf takmörkuð af annarri vitund sem lítur á sig sem ómissandi yfirboðara hennar. Vandi kvenna
liggur í þessum átökum milli grundvallarkröfu hverrar sjálfsveru um að hún sé sjálf merk og
aðstæðna sem gera ráð fyrir að hún sé ómerk“ (Beauvoir 1999: 44).
Hugur 2014-5.indd 82 19/01/2015 15:09:34