Hugur - 01.01.2014, Síða 94
94 Sigurjón Árni Eyjólfsson
til þess að svo sé. Að mati Butler er þetta sjónarmið þröngt, heftandi og í raun
óþarft.
Butler telur að skilja beri á milli langana og kyns. Þó svo að menn séu kvenkyns
eða karlkyns þýðir það ekki að þeir verði að finna þrám sínum og löngunum
fyrirfram gefinn farveg. Enda þótt innan orðræðunnar séu til staðar kynbundnir
farvegir hafi slíkt ekkert að gera með líffræðilegt kyn. Þannig sé það engin þver-
stæða eða á skjön við eitthvert „líffræðilegt“ kyn að kona kunni að hafa karllegar
þrár og óskir og karl kvenlegar, slíkt beri að virða.106 Það sem helst hafni þessu
viðhorfi sé sú gagnkynhneigða nauðhyggja sem hafi löngum mótað m.a. vestræna
samfélagsgerð og menningu. Innan hennar miðist allt við samskipti kynjanna
og þann ramma sem samband gagnkynhneigðra setji. Hér sé femínisminn eng-
in undantekning. Samskipti kynjanna séu færð í þá umgjörð „skyldugagnkyn-
hneigðar“ sem samfélagið byggi á.107 Af því leiðir að samkynheigð sambönd eigi
hvorki sjálfstæðan rétt né geti þau lotið öðrum lögmálum en þeim sem eigi við
um sambönd gagnkynheigðra. Þegar nánar sé að gáð komi í ljós að sjónarmið
annarrar kynslóðarinnar séu sömuleiðis bundin af orðræðu feðraveldisins. Rökin,
frumspekin og verufræðin séu endurtekin í lítt breyttu samhengi og reynist þar
jafn bundin af skilgreindri „eðlilegri“ kynhegðun og áður.108
Þessum sjónarmiðum hafnar Butler og túlkar kyngervi sem æft hlutverk.109 Kyn
hafi lítið að gera með líffræði, þvert á móti felist það mun fremur í því hlut-
verki sem einstaklingarnir tileinki sér sjálfir, öðlist og sinni innan samfélagsins.110
Kynið er ekki eitthvað sem er gefið við fæðingu,111 heldur verður einstaklingurinn
að læra og temja sér þá hegðun sem því fylgi.112 Hann verður að gera þær reglur
og viðmið að sínum sem samfélagið setur varðandi kynhegðun.113 Það er í þessu
samhengi sem fleyg orð Simone de Beauvoir fá aukið vægi, þ.e. um að maður fæð-
ist ekki kona heldur verði það. Innan samfélagsins (í uppeldinu, skólagöngunni
o.s.frv.) lærir fólk hlutverk sín og temur sér þau. Það tileinkar sér vissa hegðun þar
til hún verður því eiginleg. Menn prófa sig áfram og skipta jafnvel um hlutverk
eftir því sem aðstæður krefjast. Einstaklingar prófa kvenleg og karlleg hlutverk
þar til eiginleikarnir verða þeim sem eðlislægir og skilgreina sjálfsmynd þeirra.
Sjálfsmyndin skapast smám saman með æfingu og umfram allt í samskiptum við
106 Butler 2012: 180–181.
107 Butler 2012: 45, 58–59, 185.
108 Butler 2012: 45, 58–59.
109 Butler 2012: 49, 206–208.
110 Butler 2012: 15–21, 26, Villa 2012: 59–78.
111 Samkvæmt Butler er líffræðilegt kyn ekki veruleiki handan orðræðu sem hægt er að tengja við
einhvern eðlislægan sannleika er menn verði að lúta. Butler 2012: 26, 60–61.
112 „Með öðrum orðum þvingar „kyn“ fram gervigreiningu úr einkennum sem að öðru leyti eru
ósamfelld. „Kyn“ er bæði orðræðubundið og skynrænt, og sem slíkt gefur það til kynna þekkingar-
fræðilega stjórn háða sögulegri óvissu, tungumál sem býr til skynjun með því að þvinga fram
þau gagnkvæmu tengsl sem móta skynjun á efnislegum líkömum. […] Samansöfnuð einkenni
kynjaflokkunarinnar eru ekki bara vafasöm heldur jafnframt aðgreiningin á „einkennunum
sjálfum“. Að getnaðarlimur, leggöng, brjóst og svo framvegis eru nafngreindir hlutar kynfæra
takmarkar bæði hinn kynferðislega líkama við þessa hluta og sundrar líkamsheildinni. Í raun og
veru er sú „eining“ sem þröngvað er upp á líkamann með flokkun í kyn „sundrung“, sundurlimum,
niðurhólfun og smættun á kynörvun“ (Butler 2002: 167).
113 Butler 2012: 212–213, Butler 1995: 133, 170, 305.
Hugur 2014-5.indd 94 19/01/2015 15:09:34