Hugur - 01.01.2014, Page 96
96 Sigurjón Árni Eyjólfsson
túlka það. Tungumálið hefur í heimspeki Butler svipaða stöðu og hugkvíarnar í
þekkingarfræði Kants: Maðurinn getur ekki skynjað heiminn beint, heldur öðlast
hann reynslu og þekkingu sína fyrir tilstuðlan skynjunarinnar. Úr henni vinnur
hann með hjálp forskilvitlegra skynjunarforma tíma og rúms og orsakasamhengis
sem telst til tólf hugkvía skilningsins.120 Þessa stöðu hugkvíanna tekur tungu-
málið í heimspeki Butler.121
Líkami og kyn eru ætíð hluti af tungumáli og túlkun og þar með sögulega
skilyrt.122 Sýn mannsins á líkamann er því hluti af ákveðnum túlkunarheimi eða
orðræðu sem mótar skynjun hans og skilning. Þessi staðreynd kemur t.d. vel fram
í því hvernig kynlíf er ætíð metið og staðsett innan ramma gagnkynhneigðar,
nauðhyggju o.s.frv. Í bók sinni Bodies that matter heldur Butler því fram að innan
líffræðinnar sé ekki hægt ganga út frá einhverju sem fyrirfram gefnu. Eins og
allar aðrar nálganir manna sé líffræðin sögulega skilyrt og mótuð af félagslegum
viðmiðum, þ.e. tungumálinu. Tungumálið setji skynjun mannsins því mörk sem
ekki sé hægt að yfirstíga.
Í þekkingafræði Kants kemur skýrt fram að manninum er ekki gefið að skoða
heiminn eins og hann raunverulega er heldur skynjar hann veruleikann ætíð sem
miðlaða stærð. Fyrir Butler á þetta einnig við um hið líffræðilega kyn. Enda þótt
líkamar karla og kvenna séu ólíkir skýri það eitt ekki hvað kyn merkir. Það er
ekki líffræðin sem veiti muninum vægi heldur tungumálið og menningin. Það
sé opið hvernig hann eigi að túlka og það sé viðfangsefni samfélagsins. Túlkunin
er auk þess ólík eftir menningarheimum. Vægi kyns hlýtur því að vera afstætt og
í vestrænum samfélögum séu í boði margir möguleikar um hvernig megi túlka
muninn en ekki aðeins einn.
Butler hafnar þar með túlkuninni sem gengur út frá aðgreiningu milli kyns
og kyngervis. Þessi skil og merking þeirra reynast ekki eins ljós og af er látið og
staðsetur Butler þannig hugtakið kyn undir yfirhugtakinu kyngervi. Þessu veldur
að líffræðilegt kyn er söguleg og félagsleg afurð. Þetta kemur fram æ ofan í æ í því
að líffræðilegu kyni er beitt sem mælistiku til að skipta fólki í flokka. Að hennar
mati er ekki unnt að láta muninn, sem hér er skilgreindur sem eðlislægur, standa
eins og staðreynd, heldur ber að líta á hann sem hluta af ákveðinni túlkun og
sögu. Þannig er ekki hægt að leggja beint út af náttúrunni (enda er hún ekki gefin
stærð), heldur verður að miða við tungumálið og túlkanir. Þar með er ómögulegt
að setja niður hvað geti talist karllegt og hvað kvenlegt enda beri í öllu mati að
gera ráð fyrir hreyfanleika og á það einnig við um hið líffræðilega kyn.
Með þessum hætti tekst Butler að losa femínismann við kynbindingu sína og
auka skilning á báðum kynjum eða réttara sagt þeim öllum. Femínismanum er
þar með veitt víðtækara svið sem fangað er með hugtakinu kynjafræði. Butler
losaði þannig á fræðunum það tak sem kennisetningin og kreddan um eðlislægan
mun kynjanna hafði. Kynið eða orðræðan er hvorki lokað kerfi né einnar gerðar
heldur margir orðræðuheimar. Þeir eru ekki heildstæðir, heldur glufóttir og leyfa
120 Sigurjón Árni Eyjólfsson 2008: 89.
121 Butler 2012: 202. Sjá Villa 2012: 19–34, Meißner 2012: 15–19.
122 Butler 2012: 60–61.
Hugur 2014-5.indd 96 19/01/2015 15:09:34