Hugur - 01.01.2014, Page 109
„Nýmenni“ eða mörk mennskunnar 109
Auk ofangreindra atriða hafa önnur siðferðileg álitaefni verið nefnd. Róttæk
efling á heilastarfsemi einstaklings veldur ekki aðeins breytingu á skynjun hans
á veruleikanum heldur getur breytt sjálfsmynd hans. Þetta getur aftur valdið svo
breyttri sýn manneskju á lífið að hún tengi ekki lengur við sína eigin fortíð og
minningar. Einnig verður að hugleiða hvaða möguleikar væru á misnotkun þess-
arar tækni, til dæmis gagnvart þeim sem eru með „óæskilega hegðun“. Vel má
hugsa sér að fólk með þroskafrávik eða hegðunarfrávik verði sérstakt viðfang
þessarar nýju tækni og jafnvel verði litið á það sem skyldu foreldra að efla þau
börn sem hafa þroskafrávik hvers konar. Loks má geta þess möguleika að efling
verði notuð til þess að auðvelda fólki að fremja glæpi eða voðaverk. Vitað er að
lyf hafa verið notuð í hernaði til að bæla óbeit hermanna á þeim verkum sem þeir
fremja, enda vel þekkt hvernig sum eiturlyf slæva tilfinningalíf fólks og siðferð-
iskennd.
Af því sem hér var sagt að framan er ljóst að siðferðileg álitaefni tengd heila-
og taugaeflingu endurspegla áhyggjur fólks af ójöfnuði í samfélögum nútímans
og gefa tilefni til þess að velta frekar upp hvað áhugi á taugaeflingu segi okkur
um samfélagið sem við búum í og gildismat okkar. Því hefur verið haldið fram
að hinn mikli áhugi á taugaeflingu sé birtingarmynd óánægju mannsins og þess
hve erfitt honum reynist að sætta sig við sjálfan sig og eigin takmarkanir. 28 Þessi
óánægja og leit eftir því að bæta sig sé þannig grundvallarþáttur í mannlegu lífi
og drifkraftur allrar framþróunar. Vissulega hefur mannsandinn náð ótrúlegum
árangri í sögu sinni og yfirunnið margs konar takmarkanir, en því má einnig halda
fram að þessi leit ýti enn frekar undir óánægju mannsins með sjálfan sig og ali á
þeirri trú að betra líf geti verið í vændum fremur en að hann sættist við hlutskipti
sitt hér og nú. Óánægjan dregur því athyglina frá því sem manneskjan hefur og að
því sem hún hefur ekki – hún dregur athyglina að takmörkunum og lýtum frekar
en að hæfileikum og getu. Í sumum tilfellum getur athyglin á ófullkomleikann
orðið að þráhyggju og verið tortímandi. 29 Slík þráhyggja hefur verið kunnuglegt
stef úr í bókmenntum í gegnum aldirnar.
Þróun á heila- og taugaeflingu með lyfjum eða ígræðslum miðar að tæknileg-
um lausnum sem eru hraðvirkar og hagkvæmar. Páll Skúlason, sem mikið hefur
fjallað um áhrif tækninnar í nútímanum, varar við því sem hann kallar tækni-
hyggju, eða þeim hugsunarhætti sem mótast af gildismati tækninnar, hagkvæmni
og skjótvirkni. Gildismat tækninnar er þá yfirfært á alla þætti veruleikans.30 Þessi
tæknilega sýn á eflingu birtist með áhugaverðum hætti í kvikmyndinni Limitless.
Hugmyndin sem þar kemur fram um bætta heilastarfsemi, eða ofurheila, er ein-
staklingur sem getur unnið undrahratt úr alls kyns gögnum, heili Eddie líkist því
ofurtölvu. En er slík heilaefling eftirsóknarverð? Er manneskja með heila líkan
ofurtölvu „betri“ manneskja en sú sem hefur venjulega greind?
28 Sjá umræðu um Peter Sloterdijk í Zwart 2013.
29 Ástríður Stefánsdóttir 2009: 39–40. Ástríður ræðir í þessu samhengi smásöguna „The Birthmark“,
en í henni leitar frægur vísindamaður allra leiða til að fjarlægja fæðingablett í andliti konu sinnar
sem að öðru leyti er nánast fullkomin. Að lokum finnur hann leið til að fjarlægja blettinn en gerir
um leið út af við konu sína.
30 Páll Skúlason 1998.
Hugur 2014-5.indd 109 19/01/2015 15:09:35