Hugur - 01.01.2014, Page 116
116 Henry Alexander Henrysson
úrunni og hvort siðfræðileg greining geti byggst á tilgátum um hvernig fólk hefur
aðlagað sig umhverfi sínu. Sú heimspekilega umræða sem með því vaknar getur
virkað framandi fyrir almenning og jafnvel fráhrindandi. Eitt einkenni hagnýttr-
ar siðfræði er að hún verður að hafa þverfaglega skírskotun. Hún má ekki festast í
ákveðinni orðræðu sem aðrir en sérfræðingar ráða illa við að beita.9 En það verður
að viðurkennast að þetta getur virkað þversagnarkennt. Vandamálin sem stendur
til að ræða eru oft einungis skiljanleg í ljósi slíks hugtakaforða. Spurningar um
hversu mannhverfar forsendur siðfræðilegrar greiningar geta verið og hvort nátt-
úruleg fyrirbæri geti haft eigingildi til að bera eru dæmi um þetta.10 En geta svör
við slíkum spurningum leyft okkur að telja sumar athafnir okkar ámælisverðar og
aðrar til eftirbreytni? Þurfa þær ekki að blandast hversdagslegri hugleiðingum?
Skotveiðar
Frá ómunatíð hefur mannkynið stundað dráp á öðrum dýrum sér til matar. Veiðar
kunna að hafa verið fyrsta aðferðin við að afla sér fæðu úr dýraríkinu en landbún-
aður hefur líklega lagt til mest af því kjöti sem mannkynið hefur neytt síðustu ár-
þúsund. Á seinni árum hafa sífellt fleiri siðferðileg álitamál sem snerta kjötfram-
leiðslu komið upp á yfirborðið. Ein skýringin á því er að umræða um siðferðileg
álitamál hefur aukist með meiri rannsóknum og útgáfu í siðfræði, meðal annars
á efni fyrir almenning. Önnur skýring er sífellt minni reynsla sem almenningur
hefur af störfum og aðbúnaði dýra í sveitum. Helsta skýringin er þó vafalaust sú
að landbúnaður hefur verið að taka miklum breytingum og líkist víða meira og
meira nokkurs konar verksmiðjuframleiðslu. Gagnrýni á slíkan landbúnað tekur
einkum á sig tvær myndir. Annars vegar hefur fólk áhyggjur af aðbúnaði dýra
og hefur umfjöllun um hann í fjölmiðlum haft mikil áhrif á fólk og gefið fullt
tilefni til slíkra áhyggna.11 Hins vegar er ljóst að slíkur landbúnaður, eða krafan
um að hann sé stundaður, hefur víðtæk umhverfisáhrif og fólk hefur sífellt meiri
áhyggjur af því að landbúnaðarafurðir séu fullar af óæskilegum efnum.12 Kjöt-
framleiðsla er þó ekki eina dæmið um siðferðilega gagnrýni sem komið hefur
fram um landbúnað. Líklega hefur umræða um loðdýrarækt verið engu minna
áberandi á síðustu árum. Gagnrýnendur hafa bent á að um munaðarvöru fremur
en nauðsynjavöru sé að ræða.13 Jafnframt benda þeir á eðlismun þess hvort dýr séu
9 Hagnýtt siðfræði fer fram á mótum siðfræðinnar og faggreina, sjá nánar Beauchamp 2008.
10 Notkun hugtaksins „eigingildi“ (e. intrinsic value) í umhverfissiðfræði er þekktast úr verkum
Holmes Rolston III, sjá til dæmis Rolston 1985. Hann heldur því fram að náttúruleg fyrirbæri
búi yfir siðferðilegum verðmætum sem tengjast hvorki hagsmunum manna né meðvitund þessara
fyrirbæra um eigin tilveru og hagsmuni.
11 Sem dæmi um slíka umfjöllun má nefna nýlega heimildarmynd Danska ríkissjónvarpsins um
svínaræktun, Det Store Svinerige, sem var til skamms tíma aðgengileg á vef Danska ríkisútvarps-
ins.
12 Ekki eru þó allir á einu máli um að stórtækur landbúnaður hafi neikvæðari áhrif á umhverfið
heldur en hefðbundinn landbúnaður. Enska tímaritið The Economist hefur verið framalega í flokki
þeirra sem halda því fram að sú gerð landbúnaðar sem oft er nefnd sem dæmi um umhverfisvæna
gerð hans feli í raun í sér stærra vistspor.
13 Flestir heimspekingar sem hafa skrifað um umhverfissiðfræði gera skýran greinarmun á þessu
tvennu. Lykilhugtakið í þessu sambandi, til dæmis í verkum Singers, er að valda dýrum ekki
Hugur 2014-5.indd 116 19/01/2015 15:09:35