Hugur - 01.01.2014, Side 139
Að standa ekki á sama 139
Bubeck býður þannig upp á slíka útvíkkun, sér í lagi gagnvart stofnanavæðingu
umhyggjunnar. Ef umhyggja – sem umönnun – krefst engra sérstakra tengsla
gerir það mun minni kröfu á þá sem sinna umönnunarstörfum og stofnanavæð-
ing umhyggju verður eðlilegra framhald af sífellt takmarkaðri hlut fjölskyldunnar
í umönnun. Að sama skapi býður nálgun Slote, sem lítur á umhyggju sem dyggð,
upp á algera opnun umhyggjunnar út á við. Hún krefst þá ekki nándar eða næmni,
heldur aðeins tilfinningarlegrar afstöðu og sem slík getur hún legið sem krafa á
okkur á öllum sviðum samfélagsins.15
Það er hins vegar einmitt með því að hafna hinni innbyggðu tvíræðni „care“ –
tvíræðni sem gætir að einhverju leyti líka í íslenska umhyggjuhugtakinu – sem
tillögur þeirra tapa einu af áhugaverðustu sérkennum umhyggjusiðfræðinnar. Það
er áherslan á tengsl, en nálganir þeirra endurspegla illa hugmyndir okkar um góða
umhyggju og taka ekki mið af þeim tengslum sem fólk á í í umhyggjusömum
samböndum.
Tengslaverur
Áhersla umhyggjusiðfræðinnar á mikilvægi tengsla er líklega sá þáttur hennar
sem greinir hana hvað mest frá ríkjandi siðfræðikenningum. Við lítum yfirleitt á
umhyggju sem einstefnu, í raun ekki ólíkt því hvernig við lítum á aðra siðferðis-
lega breytni. Það er einhver gerandi og einhver móttakandi. Þó vissulega komi
upp aðstæður þar sem umhyggja virðist vera einstefna, t.d. í tilfelli konu sem
hugsar um aldrað foreldri sem er illa haldið af Alzheimer, þá er hún það sjaldnast,
ef nokkurn tímann, og eru slík tilfelli alger jaðartilfelli. Viðtakandinn er alltaf á
einhvern hátt þátttakandi í umhyggjunni.16 Hann er það bæði að því leyti sem
hann bregst við henni og þeim sem veitir hana, en líka á þann enn mikilvægari
hátt að umhyggjunni lýkur ekki bara við einstakar athafnir heldur hefur hún áhrif
langt út fyrir þær. Umhyggjan skilgreinir og endurskilgreinir það samband sem
hún á sér stað í. Þegar ég faðma barnið mitt þá undirstrikar sú birtingarmynd
umhyggju minnar það samband sem við eigum umfram þetta eina atvik og þar
að auki undirstrikar hún tilveru mína sem tilfinninga- og tengslaveru í samfélagi
við aðrar slíkar verur. Umhyggja er okkur óhugsandi nema sem vísun í ákveðin
sambönd einstaklinga. Hún er tengslalegt hugtak og öðlast gildi sitt út frá þeim
tengslum sem hún birtist í.
15 Slote hefur unnið áfram með hugmyndir sínar um siðfræðikenningu grundvallaða á umhyggju
og birt þær í The Ethics of Care and Empathy. Þar (2012, 2. kafli) gerir hann grein fyrir því hvernig
umhyggjan breiðist út og hvernig við getum átt í samböndum sem einkennast af umhyggju við þá
sem eru okkur fjarlægir. Hann er þar ósammála Peter Singer (1972) um að við höfum jafna skyldu
gagnvart þeim sem eru okkur fjarlægir og þeim sem eru okkur nálægir. Þess í stað álítur Slote að
við höfum ekki jafn sterkar skyldur til þeirra sem eru okkur fjarlægir, en að við getum samt sem
áður ræktað með okkur umhyggju til þeirra og nýtir hann sér í rökfærslu sinni nýlegar rannsóknir
í sálfræði. Þó tekur sú umhyggja á sig aðrar myndir en sú sem við höfum gagnvart þeim sem eru
í okkar nánasta umhverfi.
16 Tove Pettersen (2012) ræðir ókosti þess að sjá umhyggju sem einstefnu og tengir það við vandann
við of mikla umhyggju eða fórnarlund. Að sjá umhyggju á þann hátt dregur þó upp staðalmyndir
af móðureðli og fórnfýsinni sem því fylgi, en þeirri nálgun hafnar umhyggjusiðfræðin alfarið.
Hugur 2014-5.indd 139 19/01/2015 15:09:36