Hugur - 01.01.2014, Page 148
148 Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
Megininntakið hér er að við þurfum að losa okkur við þá hugmynd að um-
hyggja og réttlæti eigi sér hvort sitt svið og þá að opinbert líf og einkalíf afmarki
á einhvern á hátt nokkuð skýr aðskilin svið. Með því að endurhugsa einstaklings-
hugtakið í ljósi þessa opnast möguleiki á því að sjá ný og önnur tengsl milli rétt-
lætis og umhyggju.
Hér er það sem hlutur tengsla, samveruleikans, samræðunnar og sambanda
verður hvað mest áþreifanlegur. Í grein sinni um þekkingarfræði siðferðisins
bendir Walker á hversu lítið vægi samskipti hafa haft í siðfræðikenningum allt
fram til okkar tíma. Siðferðisdómar virðast að öllu jöfnu eiga að vera teknir af
hálfgerðum dómurum sem meta aðstæður úr fjarlægð, líkt og hlutlægar stað-
reyndir liggi siðadómunum til grundvallar. Á sama tíma gætir gífurlegrar tregðu
til þess að viðurkenna að við komumst ekki að siðferðislega ásættanlegum nið-
urstöðum með því að fella dóma úr fjarlægð, heldur með því að ræða saman. Hún
leggur til að við hættum að „gera illskiljanleika okkar gagnvart hvert öðru verri
með því að taka einhliða ákvarðanir að óþörfu. Við gætum frekar reynt að snúa
okkur hvort að öðru: ræða málin, hlusta og hugsa upp nýja möguleika saman“.39
Þannig leggur Walker áherslu á að við lítum ekki á siðferðisvanda sem ein-
stök afmörkuð tilvik heldur sem tengipunkta, hlekki í langri keðju viðburða sem
tengja okkur saman. Hin klassísku klemmudæmi siðfræðinnar geta sagt okkur
ýmislegt um það hvernig við ættum að bregðast við hinum og þessum aðstæð-
um, en við ættum að líta á þau sem líkingamál sem hefur alið af sér hugmynd
um siðadóma sem skortir samband við raunverulegar aðstæður okkar. Þegar við
leysum úr klemmum verðum við að gefa þeim aðstæðum gaum sem við erum í og
þeim tengslum sem við eigum við þá sem dómarnir snerta.
Þetta dregur Vilhjálmur líka fram í umfjöllun sinni. Hann kemst svo að orði að
„siðferðileg lögmál án næmis fyrir aðstæðum séu innantóm, en siðferðilegt innsæi
án skilnings á almennum lögmálum sé blint“.40 Hér er næmið fyrir aðstæðum í því
fólgið að sjá hvernig við getum rökstutt undantekningar frá almennum lögmálum
í einstökum tilvikum. Þungamiðjan er áfram á óhlutdrægni og almenn lögmál
sem við upplýsum með því að hafa og meta réttar upplýsingar um málavöxtu.
Vandinn við aðstæðunæmi innan klassísku kenninganna er ekki sá að það sé
ekki nógu nákvæmt, heldur hverskonar mynd það dregur upp af siðadómum.
Og það eru hinir hlutlægu staðreyndadómar og mynd dómarans eða samninga-
mannsins sem þar liggja að baki. Aðstæðunæmið sem við ættum frekar að gera
að markmiði okkar er það sem skoðar hvernig við getum hlustað hvert á annað
og metið aðstæður í sameiningu með samskiptum sem byggjast á trausti, gagn-
kvæmri virðingu og þolinmæði.
2004 og 1986). Einnig er áhugavert að sjá þessa áherslu á að fólk rækti sambönd sín og traust í
samhengi við niðurstöður Arendt í The Origins of Totalitarianism þar sem hún færir fyrir því rök
að eitt það einkenna samfélaga okkar tíma sem elur hvað mest á alræðishyggju sé einmanaleiki
(en hún stillir honum upp andspænis einveru, sem er nauðsynleg allri dýpri hugsun). Það er í
skjóli einmanaleika og umhverfis án raunverulegra samskipta við samborgara okkar eða trausts til
þeirra sem alræðið getur skotið rótum. Arendt 1951: 476–479. Sjá líka Held 2006: 131.
39 Walker 1989: 19.
40 Vilhjálmur Árnason 2008: 321.
Hugur 2014-5.indd 148 19/01/2015 15:09:37