Hugur - 01.01.2014, Page 156
156 Ólafur Páll Jónsson
leikakenningar eins og hjá Þorsteini né stofnanakenningar eins og hjá Rawls,
heldur það sem kalla má virknikenningar. Frægustu talsmenn þessara kenninga
eru þau Amartya Sen (2011) og Martha Nussbaum (2006). Virknikenningar um
réttlæti beina gjarnan sjónum sínum að margvíslegum einstökum atriðum (líkt
og verðleikakenningar) sem teljast ýmist réttlát eða ranglát og tengjast félagslegri
stöðu en varða ekki stofnanagerð samfélagsins með beinum hætti. Sen gerir þetta
atriði að útgangspunkti í bókinni The Idea of Justice. Hann segir m.a.:
Mikilvægi þess að skilja réttlæti með hliðsjón af því sem fólk fær áorkað
tengist þeim rökum að það hvernig lífi fólk getur raunverulega lifað geti
ekki verið réttlætinu óviðkomandi. Upplýsingar um stofnanir og þær
reglur sem gilda koma ekki í stað mikilvægis mannlegs lífs, reynslu og
þess sem fólk fær áorkað.5
Viðfangsefni Sens er félagslegt réttlæti en markmið hans er ekki að lýsa grunn-
gerð réttláts samfélags eða setja fram kenningu um fullkomið réttlæti, sem væri
sambærileg við kenningar Rawls og Nozicks. Öllu heldur er markmið hans að
fjalla um réttlæti og ranglæti í samfélagi án þess að hafa slíka kenningu sem bak-
land. Sen beinir sjónum sínum ekki fyrst og fremst að stofnunum og grunngerð
samfélagsins heldur spyr hann beint um hvernig lífi fólk getur raunverulega lifað.
Sen neitar því ekki að grunngerð samfélagsins, stofnanir þess og reglur, skipti
miklu máli fyrir líf fólks og réttlátt samfélag, en hann bendir á að upplýsingar um
stofnanir og grunngerð samfélagsins segi ekki allt sem máli skiptir um reynslu
fólks og hverju það fær áorkað, sem aftur skiptir sköpum fyrir mat á því hvort
fólkið búi við réttlæti. Þar sem réttlæti varði beinlínis það hvernig lífi fólk getur
lifað, segir Sen, er ekki nóg að hafa upplýsingar um grunngerð tiltekins samfélags
til að segja til um hvort líf fólks í því samfélagi einkennist af réttlæti.
2. Rawls og verðleikakenningar
Þótt verðleikakenningin um réttlæti kunni að vera bæði hversdagsleg og barns-
lega einföld, hafnaði Rawls henni með mjög afgerandi hætti í A Theory of Justice.
Og þótt hann hafi endurskoðað margt í hugmyndum sínum á þeim 30 árum sem
liðu uns Justice as Fairness kom út, átti það ekki við um afstöðu hans til verð-
leikakenninga um réttlæti. Þannig segir Rawls í Justice as Fairness, í 20. kafla sem
ber yfirskriftina „Réttmætar væntingar, tilkall og verðskuldun“:
Ég ítreka það enn einu sinni að það er ekki til neitt viðmið um réttmætar
væntingar eða um tilkall, fyrir utan opinberar reglur samfélagsins sem
skilgreina forsendur félagslegrar samvinnu.6
Frá sjónarhóli Rawls er eina verðskuldunin sem skiptir máli fyrir félagslegt
5 Sen 2011: 18.
6 Rawls 2001: 72.
Hugur 2014-5.indd 156 19/01/2015 15:09:37