Hugur - 01.01.2014, Síða 162
162 Ólafur Páll Jónsson
svo duglegur að fara út með ruslið,“ eða „Jóna á skilið hrós fyrir frammistöðu sína
með landsliðinu,“ eða „það ætti að flengja Gutta fyrir að rífa buxurnar sínar“. Af
verðleikakenningu um réttlæti myndi þá leiða að réttlætinu hafi ekki verið þjónað
sem skyldi ef Guðmundur fær ekki klapp á bakið, Jóna ekkert hrós og Gutti
sleppur við flengingu. En þegar um barn er að ræða, þá varðar ekki mestu hverju
það hefur áorkað, því það hefur vísast ekki áorkað miklu. Að meta verðleika barns
felur frekar í sér að horfa til þess sem bíður barnsins – horfa til framtíðar þess
frekar en fortíðar. Verðleikar barns birtast ekki sem staðreynd um heiminn heldur
sem möguleiki í nálægri og fjarlægri framtíð, það sem getur orðið. En hvernig
metur maður þá verðleika barns ef þeir varða frekar óorðna framtíð en liðna for-
tíð? Og hvernig geta slíkir verðleikar barns verið grundvöllur verðskuldunar?
Líf fullorðinna er gjarnan líf í veruleika – fullorðið fólk er oft bundið þeim
veruleika sem við því blasir, jafnvel niðurnjörvað í hann. Þessi veruleiki er grund-
völlur mats okkar á verðleikum og þar með verðskuldun. Og að því marki sem
réttlæti og ranglæti byggjast á verðleikum, þá er það veran – það sem er – sem
leggur okkur til mælikvarðana. Eða svo er okkur tamt að hugsa. Þegar um er að
ræða börn gengur þessi hugsunarháttur alls ekki upp. Ef um mjög ung börn er
að ræða hafa þau einfaldlega ekki áorkað miklu, eðli málsins samkvæmt. Þau
mót sem okkur er tamt að fella hugsun okkar í þegar viðfangsefnið er réttlæti og
ranglæti í heimi fullorðinna passa hreinlega ekki þegar um börn er að ræða. Eftir
þessum hugsunarhætti, þ.e. að skilja verðleika sem það sem fólk hefur áorkað og
meta verðskuldun fólks – hvað það á skilið – út frá verðleikum þess, ættu börn
lítið skilið og ungabörn ekkert. Hér vakna tvær spurningar:
(1) Verðum við að hugsa um réttlæti og ranglæti á gjörólíkum forsendum
þegar um er að ræða börn annars vegar og fullorðna hins vegar?
(2) Hvenær gerist það, að börn hætta að vera börn og breytast í fullorðna
frá sjónarhóli réttlætis?
Seinni spurningin gefur okkur hugboð um að eitthvað hafi farið úrskeiðis í
röksemdafærslunni. Til að auka á óþægindin gætum við spurt áfram: Gerist það
smátt og smátt að viðmið um réttlæti breytast? Eru unglingar kannski undirorpn-
ir tvennskonar viðmiðum um réttlæti á sama tíma? Gætu slík tvennskonar viðmið
jafnvel verið andstæð? Það gæti skýrt vandræðaganginn sem oft er á þeim – og
foreldrum þeirra líka. En ég held samt ekki. Ég held að báðar þessar spurningar
séu misvísandi og að sú tilgáta að ólík lögmál um réttlæti gildi um börn og full-
orðna sé einfaldlega ekki rétt. Ástæðan er ekki sú að réttlæti í tilviki barna ráðist
af unnum verkum, eins og hjá fullorðnum, heldur að verðleikar sem grundvöllur
réttlætis í tilviki fullorðinna ráðast meir af hinu ókomna en því liðna. Hér höfum
við nú tvo kosti, annars vegar að hafna þeirri hugmynd að verðleikar fólks ráðist af
því sem það hefur áorkað og hins vegar að hafna verðleikahugmyndinni um rétt-
læti. Ég legg til að við förum fyrri leiðina, höfnum hugmyndinni um að verðleikar
byggist á því sem fólk hefur áorkað.
Hugur 2014-5.indd 162 19/01/2015 15:09:38