Hugur - 01.01.2014, Side 163
Réttlæti: Stofnanir og verðskuldun 163
6. Verðleikar og fyrirheit
Þótt Rawls hafni siðferðilegum verðleikahugmyndum um réttlæti, eins og ég hef
rakið að framan, er gagnlegt að huga að því sem hann segir um stofnanabundna
verðskuldun. Rawls heldur því fram að fólk missi marks þegar það spyr, eins og
oft er gert, hvort hver og einn hafi það sem honum ber. Meinið er ekki að spurn-
ingin sem slík sé gölluð, heldur að hennar er spurt á vitlausum tíma og á röngum
forsendum. Þegar spurningarinnar:
Hefur hver það sem honum ber?
er spurt, þá er gjarnan verið að leita eftir því hvort fólk hafi hlotið sanngjarna
umbun fyrir unnin verk. Ef við hugsum okkur að lífshlaupinu sé skipt upp í
ákveðin tímabil þá er venjan að spyrja þessarar spurningar við lok hvers tímabils
og horfa til baka. Líkingin við kapphlaup á hér vel við: Venjan er að útdeila verð-
launum að hlaupi loknu eftir því sem hlaupararnir tínast yfir marklínuna. Rawls
vill horfa öðruvísi á málið. Í stað þess að spyrja við lok hvers tímabils hvernig
til hafi tekist, þá vill hann spyrja við upphaf hvers tímabils um hvaða möguleika
einstaklingarnir eiga á að afla sér gæða og njóta þeirra, þ.e. hvaða aðkomu borg-
ararnir hafa að samfélaginu sem vettvangi fyrir sköpun og dreifingu gæða, og
afnot af þeim.17 Ef við höldum áfram með líkinguna við hlaupið þá gæti Rawls
sagt sem svo að í stað þess að réttlæti snúist um að afhenda medalíur að hlaupi
loknu eftir því í hvaða röð hlaupararnir komu í mark, þá snúist réttlætið um að
gera hverjum og einum kleift að taka þátt í hlaupinu með sanngjörnum hætti – og
að hlaupa á sínum hraða sína eigin leið, í keppni eða skemmtiskokki eftir því sem
hverjum hugnast.18
Réttlætið snýst ekki fyrst og fremst um umbun fyrir unnin verk, heldur um
hvaða tækifæri fólk hefur til að taka þátt í lífi samfélagsins, hvaða bjargir því
bjóðast og hvaða gáttir standa því opnar. Eða, svo notað sé orðalag frá Amartya
Sen: Réttlæti snýst um hvaða tækifæri fólk hefur til að lifa lífi sem það hefur
ástæðu til að meta að verðleikum.19 Í stað þess að horfa aftur til þess hvernig
gæðin hafa í raun skipst, leggur Rawls áherslu á að grunnstofnanir samfélagsins
séu með þeim hætti að öllum séu sköpuð sanngjörn tækifæri til að skapa, afla og
njóta gæða. Áherslan er því ekki á hvað fólk hefur, heldur á hvað fólk getur lagt
til, hvers það getur aflað og hvers það á kost á að njóta. Hefðbundin gæði eins
og laun, eignir og fríðindi eru því aðeins gæði að þeir sem þau hafa geti umbreytt
þeim í raunveruleg lífsgæði. Af þessum sökum ber ekki að líta á þau gæði sem
fólk ræður yfir, hvort heldur venjulegar eignir, menntun eða stöður, sem afrakstur
eða umbun fyrir afrakstur heldur skiptir meira máli að líta á þessi gæði sem fyrir-
heit – eða möguleg fyrirheit. Þessi áhersla Rawls á gæði sem fyrirheit – jafnvel
frumgæðin – kemur skýrt fram í svari hans við gagnrýni Amartya Sen. Sen hefur
17 Rawls 2001: 139.
18 Ég fjalla um þetta atriði í kenningu Rawls í lengra máli í greininni „Skiptaréttlæti“ (Ólafur Páll
Jónsson 2012).
19 Sen 2011; Barry, 2006: 466.
Hugur 2014-5.indd 163 19/01/2015 15:09:38