Hugur - 01.01.2014, Page 164
164 Ólafur Páll Jónsson
gagnrýnt Rawls fyrir að leggja áherslu á gæði sem eru í raun tæki til að öðlast
raunveruleg lífsgæði, eins og laun augljóslega eru, frekar en hin raunverulegu lífs-
gæði sjálf. Rawls hefur brugðist við gagnrýni Sens og sagt að þau gæði sem til
mats komi beri að skoða frekar sem fyrirheit en afrakstur, og ástæðan er einmitt
sú að hugmyndin um frumgæði reiknar með þeirri grundvallargetu að lifa sem
frjáls borgari til jafns við aðra.
Sem svar [við gagnrýni Sens] legg ég áherslu á að greinargerðin fyrir
frumgæðum tekur til greina grundvallargetu, en fjarlægist hana ekki:
nefnilega getu borgaranna sem frjálsra einstaklinga til jafns við aðra í
krafti hinna tveggja siðferðilegu hæfileika.20
Að líta á þau gæði sem fólk ræður yfir sem fyrirheit frekar en afrakstur virð-
ist vera í góðu samræmi við það sem Rawls segir um verðskuldun, þ.e. að hin
siðferðilega verðskuldun skipti ekki máli fyrir kenningu um félagslegt réttlæti en
að (i) verðskuldun sem réttmætar væntingar og (ii) verðskuldun sem það að eiga
eitthvað skilið samkvæmt almennum reglum samfélagsins, skipti máli – sé jafnvel
lykilatriði – í kenningu um félagslegt réttlæti. Þótt kenning Rawls virðist hér búa
yfir innra samræmi er ég ekki sannfærður um að svo sé þegar á reynir. Vandinn
er sá að ef svar hans við gagnrýni Sens fær staðist virðist mér að hinar réttmætu
væntingar og sú hugmynd að eiga eitthvað skilið samkvæmt reglum samfélags-
ins hljóti að ganga að siðferðilegri verðskuldun sem gefinni. Réttmætar væntingar
hljóta að vera væntingar um að lifa góðu lífi, samkvæmt einhverri siðferðilegri
kenningu eða lífsheimspeki, þótt slík kenning eða speki kunni að vera breytileg
frá einni manneskju til annarrar í samfélagi sem einkennist af fjölhyggju.
Gagnrýni Sens var á þá leið að þau frumgæði sem Rawls tilgreinir sem megin-
viðfangsefni jafnaðarlögmálsins og þar með sem lykilatriði í kenningu hans um
réttlæti, væru í raun tæki til að öðlast gæði en ekki gæðin sjálf. Og þar sem fólk á
mjög miserfitt með að umbreyta slíkum gæðum, t.d. tekjum, í raunveruleg lífs-
gæði, þá missi kenning um réttlæti sem byggir á slíkum frumgæðum hreinlega
marks. Rawls viðurkennir fúslega að t.d. tekjur séu ekki raunveruleg lífsgæði
heldur einungis tæki til að öðlast slík gæði. En hann svarar gagnrýni Sens með
því að leggja áherslu á að gæðin verði að meta sem fyrirheit frekar en afrakstur.
En fyrirheit um hvað? Jú, ef svar Rawls á að ganga upp sem svar við gagnrýni
Sens, þá verða fyrirheitin að vera fyrirheit um raunveruleg lífsgæði – það að geta
lifað góðu lífi. En þar með verður að taka með í reikninginn lífsheimspeki borg-
aranna. Kenning um réttlæti verður þá ekki frístandandi pólitísk kenning, heldur
kenning sem byggir á siðferðilegum grunni, þótt sá grunnur kunni að einkennast
af fjölhyggju um hið góða líf.
20 Rawls 2001: 169.
Hugur 2014-5.indd 164 19/01/2015 15:09:38