Hugur - 01.01.2014, Page 168
Hugur | 26. ár, 2014 | s. 168–188
Elizabeth Hirsh og Gary A. Olson
„Ég – Luce Irigaray“
Samtal við Luce Irigaray1
Þrátt fyrir að vera menntuð í málvísindum, bókmenntum og sálgreiningu vill
Luce Irigaray að verk hennar séu fyrst og fremst lesin sem heimspekilegir textar
– sem inngrip í það hugsunarkerfi sem er að hennar mati „notað til að skilgreina
gildi“.2 Með því gefur hún hinu heimspekilega forgang, ekki eingöngu í eigin
verkum heldur almennt í menningunni: í sögulegri framleiðslu þekkingar, merk-
ingar, sjálfsveru, valds. Raunar staðhæfir hún að það sé vegna hinnar sterku teng-
ingar heimspekinnar við mannkynssöguna sem konur hafa verið svo gróflega
útilokaðar frá henni – „það sem konum hefur verið hvað mest synjað um er að
stunda heimspeki“ – jafnvel þar sem alið hefur verið á því að þær hneigðust til
bókmennta. Luce Irigaray kollvarpar þessari skipan með því að draga úr vægi
starfs síns sem „rithöfundar“ (auk afskipta sinna af sálgreiningu) og gerir kröfu
um að öðlast stöðu sem heimspekingur. Auk þess gefur hún til kynna að fem-
ínistar sem ástunda „jafnréttispólitík“, sem krefjast þess að „dragast ekki aftur
úr, vera ekki númer tvö“, séu samsekir í að útiloka konur frá heimspeki með því
að neita eða vanrækja að rannsaka þá þætti hugsunar sem snúa að þeim sjálfum.
„Þær standa ekki frammi fyrir þeim vanda að breyta röksemdafærslum í þeim
tilgangi að afbyggja umræðuna,“ bætir hún við. Þannig falli jafnréttisfemínismi
nokkuð vel að feðraveldinu á meðan viðleitni til að skapa „óháða pólitík“ hins
kvenlega, femínisma mismunarins, mætir sömu mótstöðu og kona sem ætlar að
stunda heimspeki – og af sömu ástæðu.
1 [Textinn heitir á frummálinu „Je – Luce Irigaray: A Meeting with Luce Irigaray“. Viðtalið var
þýtt úr ensku en eins og kemur fram hér fyrir neðan var það þýtt jafnóðum í viðtalinu sjálfu milli
frönsku og ensku af Elizabeth Hirsh og Gaëtan Brulotte. Viðtalið er frá árinu 1995 og birtist
í tímaritinu Hypatia, 10. árgangi, 2. tölublaði. Þýðingin er gerð eftir þeirri útgáfu og birt með
góðfúslegu leyfi útgefanda. – Þýð.]
2 Í samræmi við skýra og eindregna afstöðu hennar er ekki eingöngu vísað til Luce Irigaray í þessu
viðtali með því að nefna eftirnafn hennar (sem er, að sjálfsögðu, kynferðislega hlutlaust) heldur
einnig með skírnarnafni hennar (sem kynferðislega auðkennir kvenkyn).
Hugur 2014-5.indd 168 19/01/2015 15:09:38