Hugur - 01.01.2014, Qupperneq 176
176 Elizabeth Hirsh og Gary A. Olson
Sp. Bækur þínar virðast vera samdar eða samsettar á ólíka vegu. Til dæmis virð-
ist þríþætt uppbygging Speculum og tengslin milli og innan hluta hennar ómissandi
þáttur „röksemdafærslu“ bókarinnar. Á mjög ólíkan hátt virðist skipting og uppröðun
Siðfræði kynjamismunarins jafn markviss, þó að textarnir sem skipa það bindi hafi
verið samdir sem fyrirlestrar og sem slíkir við ólíkar aðstæður. Frumástríður (Passions
élémentaires) virðist samin á einhvern gerólíkan hátt. Geturðu sagt frá því hvernig
þessir eða aðrir textar voru samdir sem hluti af stærri heild?
Sv. Speculum er ekki eingöngu þríþætt verk. Það er bók skrifuð í þremur hlutum
en það er einnig nauðsynlegt að leggja áherslu á að í hlutunum felst sögulegur
viðsnúningur. Það er að segja, hún byrjar á Freud og endar á Platoni, og það er
tvöföldun í sjálfum innviðum bókarinnar: þess vegna kallast bókin Speculum auk
þess sem miðja bókarinnar kallast „Speculum“. Í henni er gegnumgangandi leikur
að sögulegum viðsnúningi og að tvöföldunum sem er mun meira en þríþættur. Þar
af leiðandi kallast miðja bókarinnar „L’incontournable volume“ – það er, rúmtakið
sem ekki er hægt að ná utan um. Siðfræði kynjamismunarins er bók sem er mun
minna samsett, hún fylgir einfaldlega sögulegri tímaröð námskeiða minna. Frum-
ástríður er samin beint. Þar sem þið spyrjið „Hvernig voru þessi rit samin?“ vil
ég takmarka athugasemdir mínar við þrjú orð – hvernig get ég sagt þau? Ég get
fyrst sagt, vonandi, listrænt, þ.e. fyrir mig er bókin einnig listgripur, sem þýðir að
ég sem bókina mína og ég á erfitt með að sætta mig við að ritstjóri breyti textum
mínum. Almennt séð afþakka ég breytingar. Til dæmis höfðu öll bil milli efn-
isgreina verið tekin út þegar ég fékk próförk af enskri þýðingu Úthafselskandans
(Amante marine) til baka og ég neyddist til að láta setja allt verkið upp á nýtt. Út
frá því myndi ég fyrst og fremst segja „listrænt“. Á heimspekilegu sviði myndi
ég segja það vera byggt upp á kontrapunkti. Þetta er erfitt, það er mikilvægt að
finna réttu orðin, annars geta þau misskilist, milli þess sem varðar kerfisbundna
uppröðun og þess sem varðar uppröðun hugleiðinganna. Og ég myndi segja að
í þriðja lagi þá semji ég bækur mínar eins og ég gæti talað í hljóði, þ.e. ég skapa
alltaf togstreitu milli tals (fr. parole) og þagnar.
Sp. Í „Bókmenntagreinunum þremur“ („Les trois genres“) lýsirðu „stíl“ í tungumáli sem
„því sem veitir reglufestu viðnám“. Getur þú gert grein fyrir þessari skilgreiningu?
Samþykkir þú að „stíl“ sé jafnað við hið kvenlega? Hvernig getur rithöfundur þróað
stíl sinn? Og að lokum, hvert er mikilvægi stíls í þínum eigin skrifum?
Sv. Ég vil benda á að flestar spurningarnar snúast um frumorðræðu um Luce
Irigaray (umfram allt segið ekki Irigaray, það finnst mér hræðilegt). Með öðrum
orðum, þið biðjið mig um að líta til baka á verk mín með gagnrýnum augum, sem
samrýmist því sem ég vil forðast. [Hlær.] Ég get það, en ég er hrædd um að viðtöl
sem þessi geti dregið úr áhrifum skrifa minna. Það er einnig af þessari ástæðu sem
ég vil ekki nota tiltekin augnablik til að útskýra eigin verk, ég vil gefa smá leiðar-
ljós, en ekki meira. Umfram allt: þýðið orð mín bókstaflega. Til dæmis, þegar ég
tala um „kerfi“ (e. schematism) þá er ég að vísa í orð Kants. Ef þú notar eitthvert
annað orð, verður það sem ég sagði merkingarlaust.
Hugur 2014-5.indd 176 19/01/2015 15:09:38