Hugur - 01.01.2014, Page 201
Hugur | 26. ár, 2014 | s. 201–207
Martin Heidegger
Leið mín til fyrirbærafræðinnar
Ég hóf háskólanám mitt við guðfræðideild Freiburgarháskóla veturinn 1909–
1910.1 Þótt meginvinnan hafi farið í guðfræðinámið gafst mér nægur tími til að
lesa heimspeki, sem var hluti af náminu hvort eð var. Þannig lágu allt frá fyrsta
misseri bæði bindin af verki Husserls, Rökfræðilegar rannsóknir (Logische Unter-
suchungen, 1900/1901), á skrifborði mínu í guðfræðideildinni. Bindin voru í eigu
háskólabókasafnsins. Skiladeginum mátti slá á frest aftur og aftur án nokkurra
vandkvæða. Nemendur sýndu verkinu greinilega lítinn áhuga. En hvernig rataði
það á borðið til mín í umhverfi sem lét það sig svo litlu varða?
Ég hafði komist að því út frá fjölda vísbendinga í tímaritum um heimspeki að
hugsun Husserls væri undir miklum áhrifum frá Franz Brentano. Allt frá 1907
hafði doktorsritgerð Brentano, Hugmyndir Aristótelesar um margháttaða merkingu
þess að vera (Von der mannigfachen Bedeutung des Seienden nach Aristoteles, 1862),
verið meginhjálp mín og leiðarvísir í klunnalegum tilraunum til að komast inn
í heimspekina. Eftirfarandi spurning snerti við mér á óljósan hátt: Ef verunni
má lýsa í margs konar skilningi, hver er þá ráðandi grunnmerking hennar? Hvað
merkir að vera? Á lokaári mínu í menntaskóla rakst ég á bók Carls Braig, sem þá
gegndi starfi prófessors í trúfræði [Dogmatik] við háskólann í Freiburg: Um það að
vera. Yfirlit yfir verufræði (Vom Sein. Abriß der Ontologie, 1896). Bókin hafði verið
gefin út árið 1896, á þeim tíma þegar höfundurinn var aðstoðarprófessor í heim-
speki við guðfræðideild Freiburgarháskóla. Í lok hinna lengri kafla verksins má
finna ítarleg kaflabrot úr verkum Aristótelesar, Tómasar frá Akvínó og Suarez, en
að auki orðsifjafræði grunnhugtaka verufræðinnar.
Ég vænti þess að Rökfræðilegar rannsóknir Husserls myndu gera gæfumuninn í
glímunni við spurningarnar sem doktorsritgerð Brentanos vakti. En erfiði mitt var
til einskis vegna þess að ég fór ekki rétt að í leit minni, eins og ég átti löngu síðar
eftir að gera mér grein fyrir. Samt sem áður var ég svo heillaður af verki Husserls
1 [„Leið mín til fyrirbærafræðinnar“ er grein sem Heidegger skrifaði í tilefni af áttræðisafmæli
Hermanns Niemeyer og birtist í Festgabe Hermann Niemeyer zum achtzigsten Geburtstag, am 16.
April 1963, Tübingen: Niemeyer 1963. Textinn sem hér er þýddur er fenginn úr Zur Sache des
Denkens, Tübingen: Niemeyer 1976, bls. 81–90. Birt með góðfúslegu leyfi de Gruyter. Marteinn
Sindri Jónsson las þýðinguna yfir og kom með gagnlegar ábendingar. Kunnum við honum bestu
þakkir fyrir. – Þýð.]
Hugur 2014-5.indd 201 19/01/2015 15:09:39