Hugur - 01.01.2014, Page 216
216 Marteinn Sindri Jónsson
mælir ekki á móti orðum hans, en lætur hann tala. Þá sannfærir hann
samstundis svo enginn hefur nokkru sinni haft orði við að bæta eða þráð
mælsku lífsins. Ó, dauði! Miklar eru fortölur þínar!21
Hrókeringar guðfræðinnar
Kierkegaard gerir býsna góða grein fyrir þeirri örvæntingu sem einstaklingurinn
kann að glíma við finni hann sér ekki leið undan ægivaldi tímans. En greining
hans virðist takmörkuð að því leyti sem síðkapítalískur nútími hefur leyft sér að
efast um loforð kristinnar trúar og býður frekar upp á aðrar aðferðir til að kljást
við tímann. Ætli eitt algengasta viðbragð nútímans andspænis tímanum sé ekki
fólgið í afþreyingunni, hinu „hverfula nýja, sem aldrei eldist og skemmtir sálinni
kveifarlega“, eins og Constantius kemst að orði?22 Eftir að við gengum af guð-
unum dauðum virðist okkur ekkert meira í mun en að drepa tímann líka.
Jafnvel heimspekin sjálf er því marki brennd að hafa erft loforð eldri trúar-
bragða líkt og Walter Benjamin gengst fúslega við í „Um söguhugtakið“ („Über
den Begriff der Geschichte“, 1940). Þar viðurkennir hann að marxísk gagnrýni
hljóti í sjálfri sér að vera innblásin af guðfræðilegum hugmyndum. Fyrsta greinin
í texta Benjamins hljóðar svo:
Sem kunnugt er á að hafa verið til vélbrúða sem þannig var úr garði gerð
að hún svaraði hverjum leik skákmanns með mótleik sem tryggði henni
sigur í skákinni. Brúða í tyrkneskum klæðum, með vatnspípu í munni,
sat við tafl sem var á rúmgóðu borði. Kerfi spegla sá til þess að borðið
virtist gegnsætt frá öllum hliðum. Sannleikurinn var sá að innan í því
sat dvergvaxinn kroppinbakur sem var snillingur í skák og stýrði hönd
brúðunnar með strengjum.
Unnt er að hugsa sér sambærilegan búnað innan heimspekinnar. […]
Hún getur fyrirhafnarlaust att kappi við hvern sem er, taki hún guð-
fræðina í þjónustu sína, sem nú á dögum er lítil og ljót eins og kunnugt
er og má hvort eð er ekki láta nokkurn mann sjá sig.23
Eftir að hafa teflt fram þessari myndlíkingu greinir Benjamin það hvernig gyð-
ing-kristilegur messsíanismi hljóti að reka þann áfram sem trúir á möguleikann
á gagnrýni eða byltingu. Trúin á endurlausnina býr að baki hrókeringum heim-
spekinganna. Hvort heimspekin sé þá „kristin“ og afþreyingarmenningin „heiðin“
skal ósagt látið. En eigi gagnrýni Benjamin á kapítalismann við einhver rök að
styðjast þá húkir annar skáksnillingur innan í annari brúðu andspænis heimspek-
inni, hinum megin við taflborðið.
Svo ég vitni í orð Benjamin frá því hér í upphafi, þá þjónar kapítalisminn í
„grundvallaratriðum því hlutverki að sefa sömu áhyggjur, sama kvalræði og sömu
21 Kierkegaard 2000: 126.
22 Kierkegaard 2000: 49.
23 Benjamin 2005: 27.
Hugur 2014-5.indd 216 19/01/2015 15:09:40