Hugur - 01.01.2014, Page 222
Hugur | 26. ár, 2014 | s. 222–232
Páll Skúlason
Náttúran í andlegum skilningi
I
Fyrir fáeinum árum skrifaði ég ritgerðina „Hugleiðingar við Öskju“ þar sem ég
reifa ýmsar hugrenningar sem eldstöðin Askja vakti með mér eftir fyrstu heim-
sókn mína þangað árið 1994.1 Ýmsar hugsanir leituðu á mig þar sem ég gekk til
baka frá Öskju: „Hvernig verður heild til og hvers konar heildir eru til? Hvernig
myndast tengsl og hvers konar tengsl eru til?“2 Nokkrum mánuðum síðar, eftir að
hafa dvalið í París, fór ég að yfirvega upplifun mína af Öskju og bar hana saman
við reynslu mína af Parísarborg.
Heimsókn minni til Öskju lýsti ég sem svo að ég væri að heimsækja jörðina í
fyrsta skipti og uppgötva þá staðreynd að ég er jarðarbúi: vera sem á tilveru sína
jörðinni að þakka, vera sem er aðeins hún sjálf í tengslum við þessa undarlegu,
yfirþyrmandi og heillandi heild sem grundvallar tilvist hennar og myndar sjálf-
stæðan, hlutlægan, náttúrulegan heim. Askja táknaði fyrir mér slíkan heim, „hlut-
læga veröld, óháða allri hugsun, trú og tjáningu, óháða öllu mannlífi.“3 Ég lýsti
Öskju sem tákni um sjálfa jörðina, „hún er jörðin eins og hún var, er og verður á
meðan hún heldur áfram hringsóli sínu um himingeiminn. Hvað sem við gerum
og hvort sem við verðum hér áfram á jörðinni eða ekki. Askja var til, jörðin var
til, löngu áður en við urðum til. Og Askja verður til löngu eftir að við erum
farin héðan.“4 Mér varð skyndilega ljóst að allt annað, allar heildir og öll tengsl
sem ég gæti mögulega uppgötvað eða ímyndað mér verða aðeins að veruleika á
grundvelli tengsla sinna við þann náttúrulega raunveruleika sem Askja táknaði
með svo stórfenglegum hætti. Til samanburðar var Parísarborg tákn um heild af
allt öðru tagi, manngerða heild sem er einungis möguleg á grunni þeirrar nátt-
úrulegu heildar sem Askja táknaði fyrir mér.
1 Grein þessi var upphaflega fyrirlestur sem fluttur var við Ohio Northern University í Bandaríkj-
unum 15. apríl 2008 undir heitinu On the Spiritual Under standing of Nature.
2 Sjá Páll Skúlason 2014: 13.
3 Sama rit: 17. Frumtexta lítillega breytt.
4 Sama rit: 17.
Hugur 2014-5.indd 222 19/01/2015 15:09:41