Hugur - 01.01.2014, Page 224
224 Páll Skúlason
II
Með þetta í huga skulum við snúa aftur á vit Öskju og hlýða á frásögn Pálma
Hannessonar af fyrstu kynnum hans af þessari stórfenglegu eldstöð, en þangað
kom hann í fyrsta sinn árið 1923.6 Ég gríp niður í frásögn Pálma þar sem hann
gengur í átt til Öskju og nýtur töfrandi útsýnis hálendisins:
Eftir stutta stund bar mig fram á þverhnípta hamrabrún, og þá sá ég
hana fyrir fótum mér, – eða var það ég, sem lá fyrir fótum hennar? Þegar
ég renndi augum fyrsta sinni yfir Öskju, varð mér það [á] að líta undan.
Slíkt hefur aldrei hent mig í annan tíma, að verða að gjalti fyrir landslagi.
En yfir Öskju hvílir einhver kynngi, einhver ögrandi ægikraftur, sem ég
varaði mig ekki á og stóðst því ekki í fyrstu þarna í einverunni. Aldrei
hef ég séð neitt jafnfurðulegt og magnað. Hið stórbrotna útsýni, sem ég
hafði notið litlu áður, var sem þurrkað burt úr vitund minni, og með ugg
hins lifandi holds stóð ég frammi fyrir þessu ægilega furðuverki dauðrar
náttúru. Þið megið ekki ætlast til þess, að ég geti lýst Öskju, svo að vel
sé. Hver getur lýst miklu listaverki? Orð og eftirmyndir verða jafnan sem
hljómandi málmur og hvellandi bjalla. Og líkt er um Öskju farið.7
Tvö grundvallaratriði eru greinileg í þessari frásögn. Hið fyrra eru þau yfirþyrm-
andi áhrif sem Askja hefur á huga þess sem hana skynjar: Pálmi verður að líta
undan, hann er sleginn út af laginu (í raun styðst hann við myndlíkinguna „að
verða að gjalti“), hann er óundirbúinn og getur enga vörn sér veitt gagnvart hrika-
legum, truflandi mætti Öskju. Allt annað hverfur á braut og Pálmi upplifir „ugg
hins lifandi holds“ andspænis þessu „ægilega furðuverki dauðrar náttúru“. Seinna
atriðið er „málleysi“ hans. Hann megnar ekki að lýsa uppgötvun sinni þó að hann
geri tilraun til þess.
Það sem Pálmi Hannesson lýsir er reynsla af því sem heimspekingurinn Rudolf
Otto hefur lýst í bók sinni, Hið heilaga (Das Heilige, 1917), sem reynslunni af hinu
hugstæða (e. the numinous).8 „Hið hugstæða“ er orðsmíð Ottos sem lýsir því sem við
teljum vera „heilagt“ eða „forboðið“, en þó án nokkurs tiltekins siðferðilegs eða
trúarlegs boðskapar. Reynslan af hinu hugstæða getur af sér alveg einstakt hugar-
ástand: „Þetta hugarástand er fullkomlega sinnar tegundar og ósmættanlegt; þar
af leiðir, rétt eins og með alla frumlega og upphaflega reynslu, að þó um hana
megi ræða, þá er ómögulegt að skilgreina hana með nákvæmum hætti.“9 Bók
6 Pálmi Hannesson (1898–1956) var náttúrufræðingur og gegndi embætti rektors Menntaskólans í
Reykjavík frá 1930 og til dauðadags. Hann ritaði fjölda bóka og ritverka auk þess að halda erindi
í útvarpi.
7 Pálmi Hannesson 1957: 109.
8 Samstarfsmaður minn og vinur, Mikael M. Karlsson, benti mér á að sú reynsla sem ég lýsi í text-
anum ætti ýmislegt sammerkt með því sem Rudolf Otto ræddi í bók sinni sem reynslu af hinu
hugstæða. Samkennin eru jafnvel enn greinilegri þegar litið er á frásögn Pálma af upplifun sinni
af því að koma til Öskju. Hér verður stuðst við enska þýðingu á verki Ottos en þar hefur titli
verksins verið breytt svo það heitir Hugmyndin um hið heilaga (The Idea of the Holy).
9 Otto 1958: 7.
Hugur 2014-5.indd 224 19/01/2015 15:09:41