Hugur - 01.01.2014, Síða 234
234 Arnar Pálsson
sjálfskviknun lífs. Jafnvel örsmáir gerlar fjölga sér með skiptingum, af einum gerli
spretta tveir og svo koll af kolli.1 Þannig mjakaðist líffræðin smám saman undan
oki gamalla hugmynda. Það gerðist meðal annars með innleiðslu tilraunavís-
inda og aðferða efna- og eðlisfræðinnar, en sú þróun hófst um aldarmótin 1900.2
Ýmsar fræðigreinar, þ. á m. örverufræðin, lífefnafræðin og erfðafræðin, lögðu síð-
an grunninn að sameindakenningunni í líffræði, sem oft er miðuð við uppgötvun
James Watson (f. 1928) og Francis Crick (1916–2004) á byggingu erfðaefnisins
árið 1953. Hin nýju fræði gjörbreyttu í kjölfarið líffræði, læknisfræði og skyldum
greinum.
Saga Monods er að vissu leyti saga þessarar byltingar. Hann var franskur líf-
fræðingur, sem í upphafi ferils síns rannsakaði frumdýr og hélt meðal annars í
leiðangur með Jean-Baptiste Charcot (1867–1936) á rannsóknaskipinu Pourquoi
pas? til Íslands og Grænlands árið 1934. Hann var á lista yfir áhafnarmeðlimi sem
áttu að leggja í leiðangurinn árið 1936, en hann tók frekar boði Boris Ephrussi
(1901–1979) um að fara til Bandaríkjanna til að sinna þar rannsóknum. Hann var
því ekki í áhöfn skipsins þegar það brotnaði við Mýrar 16. september 1936, þar sem
aðeins einn úr áhöfninni komst lífs af. Monod fór með Ephrussi til Kaliforníu til
að kynna sér ávaxtaflugur, sem voru og eru ein helsta tilraunalífvera erfðafræðinga,
við tækniháskóla fylkisins, Caltech. Þar kynntist Monod erfðafræðinni og – það
sem var ekki síður mikilvægt – opnu rannsóknarsamfélagi á jafningjagrunni sem
Thomas H. Morgan (1866–1945) og félagar hans höfðu þróað. Tilraunamennska
og opin skoðanaskipti um hugmyndir voru þar í öndvegi – akademísk staða fólks
(prófessor, nemandi, tæknimaður) skipti minna máli en í evrópskum háskólum.
Eftir heimkomuna fékk Monod starf við Sorbonne-háskóla og tók til við að
rannsaka vöxt og sykurnám Eschericia coli-baktería. Bakteríur geta notað ólíka
orkugjafa, t.d. mismunandi gerðir af sykri (svo sem glúkósa eða ávaxta sykur).
Rannsóknir Monods á E. coli voru meginefnið í doktorsverkefni hans sem hann
lauk árið 1941. Reyndar var einn prófdómarinn lítt hrifinn af verkefninu og sagði:
„Sorbonne hafa engan áhuga á því sem Monod er að fást við.“3 Orð prófdóm-
arans undirstrika hversu erfitt er að meta á hverju tíma hvaða rannsóknir skipta
máli fyrir framtíðina. Monod áttaði sig á því að E. coli stjórnar því hvaða sykur
hann notar. Ef tvær gerðir sykurs voru í boði, notaði bakterían fyrst eina gerðina
og síðan hina. Doktorsverkefnið myndaði grunninn að rannsóknum Monod og
félaga hans á genastjórn, sem áttu eftir að leiða í ljós hvernig lífverur geta stýrt
virkni sinni í takt við umhverfið. Fyrir uppgötvanir sínar hlaut Monod Nóbels-
verðlaun í læknisfræði árið 1965.
1 Guðmundur Eggertsson (2005) fjallar með ágætum um þetta.
2 Sjá um þetta prýðilega umfjöllun Steindórs J. Erlingssonar 2009.
3 Ullmann 2003.
Hugur 2014-5.indd 234 19/01/2015 15:09:41