Hugur - 01.01.2014, Síða 248
248 Sigurður Kristinsson
umræðu, svo sem með því að skrifa um fræði okkar á íslensku“.4 Gegn þeim sem
segja að háskólakennarar eigi að einbeita sér að „framúrskarandi“ rannsóknum og
kennslu og ekki dreifa kröftunum í samfélagsumræðu teflir hann þeim rökum að
háskólakennarar hafi borgaralegar skyldur til að treysta menningarleg og félagsleg
skilyrði fræðastarfs. Sinni þeir því ekki sé hætta á að „þau öfl styrkist sem koma
í veg fyrir að frækorn menntunarinnar falli í frjóan jarðveg í samfélaginu. Því
mætti segja að vanræki háskólakennari borgaralega skyldu sína þá bregðist hann
óbeint faglegum skyldum sínum við fræðin og nemendurna“. Einnig geti verið
að fræðimenn ofmeti flæði hugmynda sinna til samfélagsins og „þurfi að beita sér
á mun fleiri vígstöðvum en innan háskólanna til að bæta ræktunarskilyrðin fyrir
boðskap fræðilegrar hugsunar“.5 Þessi afstaða Vilhjálms samrýmist því hve ötull
hann hefur verið í íslenskri samfélagsumræðu og skrifum á íslensku.
Menningarleg og félagsleg skilyrði íslensks fræðastarfs krefjast þess að íslenska
sé ræktuð sem fræðimál. Fyrir þessu hafa verið færð ýmis rök. Í sinni sígildu grein
„Að hugsa á íslenzku“ lagði Þorsteinn Gylfason áherslu á að gera fræðin „líf af
sínu lífi“ og gekk reyndar svo langt að segja að eina vonin til að Íslendingur geti
hugsað og skrifað yfirleitt sé að hann geti hugsað og skrifað á íslensku.6 Þá hafa
Ástráður Eysteinsson og fleiri rætt um þann sköpunarmátt sem felst í umorðun
á móðurmáli og svo mætti áfram telja.7 Útgáfa þessa yfirgripsmikla og vandaða
verks á íslensku er því sérstakt fagnaðarefni.
Efnisþættir verksins
Bókin Farsælt líf, réttlátt samfélag er heljarmikil að vöxtum, 511 síður samtals, þar af
86 síður af fræðilegum hjálpartækjum í formi tilvísana, heimildaskrár, nafnaskrár
og atriðisorðaskrár. Megintextinn skiptist í 20 kafla auk formála, en þeir rað-
ast í stærri hluta sem nefnast „Dygðir og farsæld“, „Lögmál mannlegs siðferðis“,
„Einstaklingur og samfélag“, „Frelsi og skynsemi“, „Réttlæti og rökræður“ og loks
„Eftirþankar“.
Fyrsti hluti bókarinnar nefnist „Dygðir og farsæld“ (17–62). Þar fjallar Vil-
hjálmur um kenningar Sókratesar og Platóns andspænis sófistunum, um Ari-
stóteles, Epikúringa, stóuspeki, kristna siðfræði og náttúrulagakenningu Tómasar
frá Akvínó. Textinn í þessum hluta er almennt framúrskarandi skýr og fræðandi.
Umfjöllunin er fyrst og fremst lýsandi þótt dregnir séu lærdómar í lok hvers kafla
og rökræðum um einstök atriði séu gerð ágæt skil, ekki síst í kaflanum um sið-
fræði Aristótelesar. Hér er gríðarmikið efni undir og Vilhjálmi tekst snilldarlega
að draga fram aðalatriðin án þess að einfalda um of. Textarnir eru fyrsta flokks
kennsluefni.
Annar hluti nefnist „Lögmál mannlegs siðferðis“ (65–144). Þar er fyrst fjallað
um Hobbes og Locke undir yfirskriftinni „Náttúruréttur og samfélagssáttmáli“.
4 Vilhjálmur Árnason 2009: 25.
5 Sama rit: 26.
6 Þorsteinn Gylfason 1973.
7 Ástráður Eysteinsson 1998.
Hugur 2014-5.indd 248 19/01/2015 15:09:42