Hugur - 01.01.2014, Síða 249
Hugleiðingar um Farsælt líf, réttlátt samfélag 249
Umfjöllunin er greinandi og skörp, t.d. um mismunandi skilgreiningar á frelsis-
hugtakinu og þýðingu þeirra fyrir stjórnmálaheimspekilegar hugmyndir um
samfélag, vald og ríki.
Að því loknu er kenningum Humes og Kants lýst í kaflanum „Góðvild eða
skylda?“. Hér sýnir Vilhjálmur frábært næmi fyrir aðalatriðum og gerir kenn-
ingum þessara höfunda ljúf skil í afbragðsgóðum texta. Kenning Kants fær mesta
vægið, enda segir Vilhjálmur í formála að siðfræði Kants myndi vendipunkt í
framvindu bókarinnar. Vilhjálmur segir þar einnig réttilega að eftir að hann
kynnir Kant til sögunnar hneigist hann til að verja afstöðu í anda Kants til sið-
fræðinnar. Þetta á síðan eftir að koma vel fram í umfjölluninni um samtímahöf-
undana Rawls, Habermas og Foucault. Í þessum kafla leggur Vilhjálmur sig fram
um að lýsa kenningum Kants af næmi og þekkingu, en eltir ekki svo mjög ólar við
gagnrök og áskoranir. Hann leitast við að draga upp heildarmynd af hugsun Kants
um siðfræði og stjórnspeki og ber hana m.a. saman við hugmynd Rousseaus um
almannaviljann.
Að því loknu er komið að Mill og nytjastefnunni í samnefndum kafla. Hér er
frásögnin sem fyrr grípandi og sýnir yfirburðavald á efninu, dregur fram aðalatriði
og röklegan þráð hugsunarinnar. Í umræðu um heilindavandann nýtir Vilhjálmur
sér listavel vísanir í Sókrates, Aristóteles og Kant sem allir gera greinarmun á
siðferðilegri og tæknilegri hugsun, en sá greinarmunur er Vilhjálmi sjálfum afar
hugleikinn. Ef til vill mætti Vilhjálmur vera örlítið gagnrýnni á einstaka þætti í
kenningum og rökum Mills. Til dæmis virðist hann samþykkja án mikilla vand-
ræða að hægt sé að gera eðlis-greinarmun á æðri og óæðri ánægju án þess að gefa
sér að eitthvað annað en ánægja hafi gildi í sjálfu sér. Einnig hefði mátt takast á
við dæmi um gæði sem virðast felast í öðru en ánægju. Vilhjálmur nefnir þau rök
Mills að tilhugsunin um allt sem menn sækjast eftir sé þeim ánægjuleg, en það
virðist þó ekki jafngilda því að gæði þess sem sóst er eftir felist í þeirri ánægju
sem það veitir, eins og Robert Nozick reyndi til dæmis að sýna fram á með því
að ímynda sér val um að stíga inn í „ánægjuvél“.8 Í heild skilur kaflinn eftir sig
afar fágaðan skilning á málsvörn Mills fyrir eigin afstöðu, en óþægilega loðnar
vísbendingar um það hvernig mögulegt væri að verja þá afstöðu gegn áleitinni
heimspekilegri gagnrýni. Niðurstaðan er þó afar glögg og sannfærandi greining á
grundvallarforsendum Mills annars vegar og Kants hins vegar, ásamt upplýsandi
vangaveltum um samspil kennisetninganna í Nytjastefnunni og Frelsinu.
Síðasti kaflinn í öðrum hluta fjallar um Hegel. Sem fyrr einkennast lýsingar
Vilhjálms af innsæi og skilningi sem og smekkvísu og látlausu orðfæri. Það er
engan veginn hefðbundið að hafa Hegel með þegar saga vestrænnar siðfræði er
sögð, en þó í rökréttu samhengi við val þeirra höfunda sem á eftir koma: Marx,
Kierkegaard og Nietzsche. Einnig má segja að sú nálgun á siðfræði sem bókin í
heild er dæmi um, að lýsa framvindu og framgangi hugmynda í sögulegu sam-
hengi, sé einmitt mjög í anda Hegels. Í kaflanum um Hegel kynnist lesandinn
mikilvægri gagnrýni á kenningar Kants sem ýmsir hafa verið hallir undir æ síðan,
8 Nozick 1974: 42–45.
Hugur 2014-5.indd 249 19/01/2015 15:09:42