Hugur - 01.01.2014, Page 255
Hugur | 26. ár, 2014 | s. 255–260
Eyja Margrét Brynjarsdóttir
Hverjir eru þeir og hvar eru þær?
Bókin Hver er ég og ef svo er, hve margir? hefur verið þýdd á fjölda tungumála
og hefur náð talsverðum vinsældum meðal almennings víða um lönd. Hún kom
út á þýsku árið 2007 en í íslenskri þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar hjá
Ormstungu árið 2012. Höfundur hennar, Richard David Precht, er heimspeki-
menntaður en starfar sem fjölmiðlamaður, rithöfundur og fyrirlesari. Yfirlýstur
tilgangur bókarinnar er að vera inngangsrit um ýmis viðfangsefni heimspekinnar
fyrir almenning og þá sérstaklega með það að leiðarljósi að tengja heimspekina
við hugmyndir úr sálfræði og rannsóknir á heilanum. Bókin er nokkuð löng, hátt í
fjögur hundruð síður, og skiptist í þrjá hluta: „Hvað get ég vitað?“, „Hvað ber mér
að gera?“ og „Hvað leyfist mér að vona?“ Fyrsti hlutinn er helgaður vitundinni eða
huganum, annar hlutinn siðferðinu og sá þriðji ýmsum hugleiðingum varðandi
lífið, eðli þess og tilgang.
Stíllinn hjá Precht er alþýðlegur og afar fjarri því að líkjast einhverjum fræðirita-
skrifum. Hann segir frá hinum ýmsu heimspekilegu og vísindalegu hugmyndum
og kenningum og leggur út af þeim með sinni eigin túlkun. Þannig tengir hann
heimspekilegar kenningar um hugann og sjálfið, siðferði, samfélag og hamingju
sem og hugleiðingar um ýmis heimspekileg og siðferðileg vandamál og viðfangs-
efni við kenningar og viðfangsefni úr sálfræði og taugavísindum. Í leiðinni segir
hann frá ýmsum heimspekingum eða vísindamönnum og undan og ofan af lífs-
hlaupi þeirra. Tímabilið sem hann fæst við er aðallega frá nýöld til tuttugustu
aldar og áherslan er þar mest á nítjándu og tuttugustu öldina.
Frásögnin er þjál og aðgengileg og ætti að vera auðvelt fyrir lesandann að til-
einka sér efnið og setja sig inn í það. Hún er líka nokkuð lifandi og ég get vel
ímyndað mér að þessi skrif séu að mörgu leyti ágætlega til þess fallin að vekja
áhuga lesenda á efninu. Ég hef hins vegar ýmislegt út á aðferðir og efnistök að
setja. Eins og ég nefndi er bókin vissulega ekki hugsuð sem fræðirit og svo sem
enginn sem ætlast til þess. En þá liggur beint við að velta nánar fyrir sér hvernig
hún sé hugsuð og hvernig aðferðirnar sem beitt er henti til þess og hvort þær séu
góðar og viðeigandi.
Í fyrsta hluta bókarinnar byrjar hver kafli yfirleitt á því að ungur drengur er
Hugur 2014-5.indd 255 19/01/2015 15:09:42