Hugur - 01.01.2014, Page 260
260 Eyja Margrét Brynjarsdóttir
Eins og áður hefur verið nefnt er megintilgangur bókarinnar að vekja áhuga
lesandans á viðfangsefninu og fræða hann í leiðinni um það. Höfundur gefur
líka til kynna í upphafi að hann vilji að lesandinn hugsi sjálfstætt, eða þannig
skildi ég hann alla vega í innganginum. Þetta finnst mér persónulega langmikil-
vægasti tilgangur inngangsrits í heimspeki; að fá lesandann til að fara að hugsa
heimspekilega. Að þessu markmiði má svo kannski fara mismunandi leiðir og sú
leið Prechts að tengja heimspekilegar hugmyndir við uppgötvanir úr taugavís-
indum og sálfræði getur verið mjög skemmtileg og hann nær að leiða fram mörg
áhugaverð viðfangsefni. Mér finnst hann þó halda sjálfum sér óþarflega mikið í
sérfræðingssætinu. Jafnvel þegar kafli gengur út á einhverja flókna heimspekilega
spurningu er Precht gjarn á að enda kaflann með að svara spurningunni í lokin.
Þetta finnst mér algjör óþarfi. Hvers vegna má lesandinn ekki svara spurning-
unum sjálfur? Er Precht í raun að hvetja lesanda til sjálfstæðrar hugsunar um
efnið eða er hann að predika sína eigin túlkun og sínar eigin skoðanir?
Í þessu sambandi hjálpar það ekki að kaflarnir hjá Precht eru margir og stutt-
ir þannig að rökstuðningurinn sem boðið er upp á áður en hann svarar hinum
flóknu spurningum sem hann hefur sett fram er yfirleitt mjög stuttur. Eins og
vænta má eru því ótal dæmi um að rökstuðningi Prechts sé verulega ábótavant,
fyrst og fremst með þeim hætti að allt of hratt er farið yfir sögu. Þar sem ekki
er um fræðilegan texta að ræða er svo sem ekki ástæða til að kvarta undan skorti
á akademískum vinnubrögðum. Hins vegar má segja að þar sem um er að ræða
inngangsrit fyrir þá sem áhuga hafa á að kynnast því hvað heimspeki sé þá hljóti
það að vera afleit hugmynd að gerast sekur um vinnubrögð sem seint geti talist
til fyrirmyndar í heimspeki. Og hér vaknar sú spurning aftur hvers vegna Precht
er svo mikið í mun að koma sínum eigin niðurstöðum að. Hvers vegna þarf hann
yfirleitt að vera að segja lesendum að kærleiksríka breytni megi rekja til eigin
umbunar (166), að manngæska sé kristilegur vestrænn arfur (167), að það sé ekk-
ert siðferðislögmál í manninum sem skuldbindi hann til að sýna gæsku (175),
að það séu til mikilvægari siðferðileg grundvallaratriði en réttlætið (181–182), að
samkvæmt innsæi (persónulegu innsæi Prechts?) eigi að leyfa fóstureyðingar
fyrstu þrjá mánuðina en ekki lengur (193–194) og að kenningar Rawls beri vott
um furðulega andlausa sýn á eðli mannsins (340)? Þetta eru allt dæmi um illa
rökstuddar skoðanir Prechts sem erfitt er að sjá að eigi endilega erindi til lesenda
nema sem persónulegar skoðanir. Margir kaflanna væru mun betri og sterkari ef
síðasta hluta þeirra, þar sem Precht dregur eigin ályktanir og svarar spurningum
fyrir lesandann, væri hreinlega sleppt eða eitthvað annað gert þar í staðinn, til
dæmis eitthvað sem lesandinn gæti byggt meira á til að komast að eigin niður-
stöðum.
Þetta er bók sem byggir á góðri grundvallarhugmynd og höfundur á marga
góða spretti en í heildina hefði úrvinnslan þurft að vera betri.
Hugur 2014-5.indd 260 19/01/2015 15:09:42