Orð og tunga - 2021, Page 16
Ari Páll Kristinsson: Innri breytileiki og málsnið 5
að slík orð þættu ekki henta ritstýrðum rituðum textum á borð við
kennslubækur, skýrslur og dagblöð en hluta þátttakenda þótti þau
vel geta átt heima í óformlegri textategundum á borð við færslur á
Facebook og persónulegt blogg. Loks má nefna rannsókn Ara Páls
Kristinssonar (2009) sem sýndi margháttaðan mun á málsniði í út
varps fréttum annars vegar og dægurmálaþáttum í útvarpi hins vegar.
Breytileiki og tilbrigði í íslensku sem oftast hafa verið athuguð í
textum eða öðrum könnunum, svo sem með dómum málnotenda
um setningar og orðalag, hafa helst snúið að minni eða stærri hópum
málnotenda í senn. Full ástæða er hins vegar til að gefa innri breytileika
einstakra málnotenda meiri gaum, sbr. kafla 2.2.
2.2 Athuganir á innri breytileika
Athuganir af því tagi sem nefndar eru í 2.1 veita yfirlit yfir málnotkun
fólks í minni og stærri hópum, sem flokka má nánar, meðal annars eftir
félagslegum bakgrunnsþáttum. En jafnframt þeim hafa rannsóknir á
tilbrigðum í íslensku einnig dregið fram að þar má finna ákveðinn
innri breytileika.
Í athugunum Björns Guðfinnssonar á fimmta áratug síðustu aldar
var t.a.m. skráður svonefndur blandaður framburður fólks. Þar kom
t.d. fram að um 8% barna í Reykjavík báru /p, t, k/ milli sérhljóða
stundum fram [ph], [th], [kh] og stundum [p], [t], [k] og segir Björn í
því sambandi að ýmsir fullorðnir linmæltir málnotendur í Reykjavík
séu að reyna að tileinka sér harðmæli og leitist jafnframt við að
beina framburði barna sinna í þá átt (Björn Guðfinnsson 1946:159).
Hér er sem sé ekki aðeins heimild um innri breytileika í framburði
reykvískra barna heldur jafnframt tilgáta til skýringar á a.m.k. hluta
slíkra tilvika, þ.e. að harðmæli hafi beinlínis verið haldið að börnum
og væri þá gert ráð fyrir að þau hafi brugðið því fyrir sig annað slagið
þótt þeim væri það annars ekki nærtækast í daglegu tali.
Í gögnum sem safnað var í RÍNrannsóknum Höskuldar Þráins
sonar og Kristjáns Árnasonar á níunda áratug síðustu aldar voru
einnig skráð margvísleg dæmi um blandaðan framburð. Fram kom
t.d. að 21% húsvískra ungmenna (10–20 ára) bar /ngl/ stundum fram
[ŋkl] og stundum [ŋl] (Kristján Árnason 2005:377).
Þá er það ekki síður athyglisvert að í framburðarprófum RÍN
hafði framburðurinn [tn] og [tl] „reynst talsvert algengari“ en [rtn]
og [rtl] þegar spjallað var við fólk og það látið lýsa myndum en
tunga_23.indb 5 16.06.2021 17:06:47