Orð og tunga - 2021, Page 70
Ásta Svavarsdóttir: Málnotkun í fjölskyldubréfum 59
að meðaltali nota þeir hvert orð 1,4 sinnum en þær á bilinu 1,6–2,2
sinnum (reiknað sem hlutfall á milli dæmafjölda og orðafjölda). Auk
þess nota bræðurnir frekar orð sem eru beinlínis útlensk en slík orð
koma aftur á móti varla fyrir í bréfum systranna. Þeir sletta m.ö.o.
meira en þær, nærri 24% dæmanna hjá þeim eru erlend orð en innan
við 1% í bréfum systranna.
En hvaða aðkomuorð eða hópa orða nota systkinin og má greina
mun á því hvers konar orð er um að ræða? Er m.ö.o. ekki einungis
munur á umfangi orðanna heldur einnig á eðli þeirra og einkennum?
Í Töflu 6 sést að bræðurnir nota nokkuð af útlendum orðum en
systurnar lítt eða ekki. Þetta eru svokölluð kóðavíxl (e. code switching),
þ.e.a.s. orð eða frasar úr máli sem fólki er tiltækt og það grípur til
þegar það er að tala eða skrifa annað mál, oftast eigið móðurmál.
Þetta er frekar augljóst þegar um frasa eða jafnvel lengri textabrot
er að ræða en aftur á móti eru skil milli kóðavíxla sem fela í sér stök
orð og tökuorða (e. lexical borrowings) óljósari og erfitt að greina
örugglega þar á milli (sjá t.d. Winford 2003:107−108) þótt hér hafi
verið gerð tilraun til að aðgreina þau til þess að skerpa myndina. Orð
sem greind eru sem „erlend“ — og eru um leið hlutmengi í „orðum af
erlendum uppruna“ í töflunni — eiga það sameiginlegt að hafa ekki
aðlagast íslensku, halda t.d. erlendum rithætti og fá ekki íslenskar
beygingarendingar í samræmi við stöðu sína í setningum. Í bréfum
Finns, sem bjó í Kaupmannahöfn frá 1878 til æviloka, er fyrst og
fremst um að ræða dönsk orð. Þau koma aðallega fyrir í tilvitnunum
til danskra rita eða manna, yfirleitt auðkenndum með gæsalöppum,
t.d. vísar hann beint til umsagna kennara sinna þegar hann segir frá
frammistöðu sinni í prófum. Auk þess notar hann einstöku erlend orð
í frásögnum af lífi sínu í Danmörku, t.d. um mat, drykk og gjafir þegar
hann lýsir brúðkaupi sínu fyrir föðurnum, t.d. champignon ‘sveppir’
og chaiselongue ‘sessalón’ (í sviga aftan við orðið sófi), og loks bregður
fyrir hjá honum danska orðatiltækinu fanden gale mig. Erlend orð í
bréfum Klemensar standa frekar stök inni í íslensku samhengi og
hann notar latnesk orð, sérstaklega í bréfum skrifuðum á árum hans
í Lærða skólanum, auk danskra orða. Hann kveður t.d. systkini sín
með orðunum „ykkar elskandi frater“, segir að „fáir productiv menn“
séu í félagi nokkru, talar um að „efla góð forstaaelsi“ milli fólks og um
„alverdens meðöl“. Hann notar líka stundum erlenda frasa í augljósum
kóðavíxlum, ávarpar t.d. Finn sem Carissime frater, segir konu sína
ekki fá rational Behandling (á Akureyri) og skýtur inn í bréfi til Finns
setningunni jo pyt min bror det er feiltagelse án þess að auðkenna hana
tunga_23.indb 59 16.06.2021 17:06:49