Orð og tunga - 2021, Blaðsíða 88
Þorsteinn G. Indriðason: Viðskeytaraðir í íslensku 77
að grunnorðið megi ekki vera viðskeytt eða jafnvel að grunnorðið
verði að vera viðskeytt.11
3.2 Viðskeyti tengist grunnorði af ákveðnum orðflokki
Að viðskeyti gætu einungis tengst grunnorðum af einum orðflokki
var inntakið í tilgátu Aronoffs (1976) um einsleitan grunn (e. unitary
base hypothesis, sjá enn fremur Eirík Rögnvaldsson 1988 og Enger 2008).
Fjölmörg dæmi eru hins vegar til um það að viðskeyti tengist grunn
orðum af fleiri orðflokkum og að slík dæmi séu þannig hugsanleg
mótdæmi við tilgátunni (sjá Eirík Rögnvaldsson 1988 um þetta atriði
í íslensku og Enger 2008 um svipuð atriði í norsku). Málið er þó ekki
alveg svona einfalt því Aronoff byggði tilgátu sína á þáttagreiningu
generatífrar málfræði sem gerði ráð fyrir því að stór líkindi væru
t.d. með nafnorðum og lýsingarorðum og því gæti tiltekið viðskeyti
tengst grunnorðum af þessum orðflokkum án þess að um mótdæmi
væri að ræða. Tilgátan náði svo einungis til orðmyndunarlega virkra
viðskeyta. Raunveruleg mótdæmi væru viðskeyti sem gætu bæði
tengst nafnorðum og sögnum sem eru alls óskyldir orðflokkar sam
kvæmt áðurnefndri greiningu. Viðskeytið ari gæti verið mögulegur
kandídat fyrir þannig mótdæmi. Viðskeytið er vel virkt, á því er
ekki nokkur vafi, og þó það tengist aðallega sögnum, bæði veikum
og sterkum, sbr. kennari og hlaupari, þá getur það einnig tengst
nafnorðum, sbr. Hólmari og t.d. borgari (heimsborgari). Til þess að halda
fram tilgátunni í óbreyttri mynd þyrfti því að leggja fram sannfærandi
rök fyrir því að viðskeytið sem tengist nafnorðum væri á einhvern
hátt frábrugðið viðskeytinu sem tengist sögnum, að ekki væri um að
ræða sama viðskeytið í báðum tilfellum.
Ef dæmi úr íslensku eru skoðuð þá má finna viðskeyti þar á meðal
sem einungis tengjast grunnorðum af einum ákveðnum orðflokki.
Þetta eru viðskeyti eins og heit sem tengist einungis lýsingarorðum,
sbr. merkilegheit og fljótheit og un sem tengist einungis sögnum, sbr.
hækkun og þróun. Dæmi um virk viðskeyti sem geta bæði tengst
nafnorðum og lýsingarorðum eru látur, sbr. dramblátur og blíðlátur,
og lingur, sbr. disklingur og unglingur.
11 Oftast er ekki hægt að hafa fleiri en tvö viðskeyti saman innan orðs í íslensku.
Hvort kalla megi þetta hömlu á fjölda viðskeyta innan sama orðs er þó óvíst en
tilhneigingin um aðeins tvö samliggjandi viðskeyti er fyrir hendi. Dæmi um þrjú
viðskeyti innan orðs eru hins vegar til, sbr. hverf-ul-leg-leiki og mynd-ug-leg-heit og
þessi dæmi eru eflaust nokkru fleiri en ekki var sérstaklega leitað að þeim.
tunga_23.indb 77 16.06.2021 17:06:50