Orð og tunga - 2021, Page 52
Ásta Svavarsdóttir: Málnotkun í fjölskyldubréfum 41
bréf í safninu og úr þeim var sett saman úrval bréfa sem myndar
kjarna efniviðarins sem rannsóknin byggist á (sjá kafla 3.2). Eftir því
sem tilefni þótti til voru fleiri bréf úr safninu skoðuð til samanburðar,
t.d. önnur bréf þessara skrifara, bréf frá öðrum einstaklingum, bréf
frá tilteknu tímabili eða af ákveðnum landsvæðum. Einnig var gripið
til annarra málheimilda, þar á meðal rafræns textasafns úr blöðum
og tímaritum frá 19. öld, alls um 1,4 milljónir lesmálsorða, ýmist í
heild eða valdra hluta þess.4 Með því móti var reynt að meta hversu
dæmigerðar niðurstöður úr athugun á fjölskyldubréfunum væru
miðað við stærri hóp bréfritara og þannig látið reyna á þá túlkun sem
virtist blasa við.
3.2 Bréfritarar og viðtakendur
Bréfritararnir sem hér eru í forgrunni eru fimm elstu börn Jóns Jóns
sonar Borgfirðings (1826−1912). Þau mynda samstæðan hóp ein stakl
inga á líkum aldri og með sameiginlegan bakgrunn þótt ýmislegt
annað greini þau að. Í safninu eru mörg bréf frá hverju þeirra og
talsvert mikið er vitað um aðstæður þeirra og lífshlaup (sjá t.d. Sigrúnu
Sigurðardóttur 1999, Finn Jónsson 1936 og Guðrúnu Borgfjörð 1947).
Bréf þeirra eru því ágætlega fallin til málfélagslegra athugana.
Fjögur systkinanna — Guðrún (f. 1856), Finnur (f. 1858), Klemens
(f. 1862) og Guðný (f. 1865) — voru hjónabandsbörn og ólust upp
saman en það fimmta, Sigurjóna (f. 1865), var hálfsystir þeirra og hafði
ekkert samband við fjölskylduna á uppvaxtarárum sínum. Þrjú elstu
börnin voru fædd á Akureyri, þar sem foreldrarnir stofnuðu fyrst
heimili, en árið sem yngri alsystirin fæddist fluttist fjölskyldan til
Reykjavíkur. Síðar bættust tveir yngri bræður í hópinn en þeir koma
ekki við sögu hér. Foreldrarnir voru af fátæku fólki, þau voru fædd
í sveit á fyrri hluta aldarinnar og áttu ekki völ á formlegri menntun
þótt bæði væru þau bókelsk og námfús. Faðirinn lærði bókband og
vann við það framan af en gerðist síðar lögregluþjónn í Reykjavík;
meðfram þeim störfum stundaði hann bóksölu og fræðistörf. Móðirin
annaðist heimilið og uppeldi barnanna en tók líka að sér að segja
öðrum börnum til í lestri. Fjölskyldan var vel bjargálna eftir því
4 Safnið er afrakstur verkefnisins „Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19.
öld: tilurð opinbers málstaðals“ (sjá nmgr. 3) og var annað megingagnasafn þess.
Það byggist á úrvali og frekari úrvinnslu texta af Tímarit.is og hefur verið nýtt sem
fulltrúi formlegra, ópersónulegra texta, ekki síst til samanburðar við bréfasafnið
(sjá nánar um eðlismun þessara gagnasafna hjá Ástu Svavarsdóttur 2017:54–55).
tunga_23.indb 41 16.06.2021 17:06:48