Orð og tunga - 2021, Blaðsíða 53
42 Orð og tunga
sem þá gerðist hjá alþýðufólki og allir meðlimir hennar tóku þátt í
að framfleyta heimilinu eftir því sem aldur og geta leyfði. Í bernsku
virðast systkinin hafa notið sömu eða sams konar uppfræðslu hjá
foreldrunum sem kenndu þeim snemma að lesa og skrifa og þau
höfðu góðan aðgang að bókum á heimilinu. Síðar fengu þau einnig
tilsögn í fleiri greinum, t.d. reikningi og dönsku, utan heimilis. Um
formlega skólagöngu var ekki að ræða að frátöldum einum vetri
Guðrúnar í barnaskóla bæjarins, sem þótti reyndar lélegur á þeim
tíma (Finnur Jónsson 1936:14). Alsystkinin fjögur höfðu því öll sama
fjölskyldu og þjóðfélagsbakgrunn og mál þeirra mótaðist í sama
umhverfi. Þegar kom fram á unglingsár fór kyn þeirra aftur á móti
að hafa áhrif á þá möguleika sem þeim buðust og kröfurnar sem voru
gerðar til þeirra. Drengirnir fóru í Lærða skólann og foreldrarnir höfðu
mikinn metnað fyrir þeirra hönd og væntingar um að þeir stæðu sig
vel í námi. Að loknu stúdentsprófi fóru þeir báðir til háskólanáms
í Kaupmannahöfn. Stúlkurnar fengu aftur á móti litla eða enga
formlega menntun og því réðu bæði heimilisaðstæður og tíðarandi.
Guðrún fékk ágæta uppfræðslu og einnig tilsögn í saumaskap sem
hún nýtti sér síðar til tekjuöflunar, m.a. með kennslu, en átti ekki
kost á skólavist í Kvennaskólanum þótt áhugann skorti ekki. Aftur
á móti beitti hún sér fyrir því síðar að Guðný fengi að fara í skólann
og hún stundaði þar nám í einn vetur. Að sama skapi réði kyn miklu
um framtíðarstörf og stöðu einstaklinga á þessum tíma. Bræðurnir
fengu góð embætti að loknu háskólaprófi, annar í Kaupmannahöfn
og hinn á Íslandi, en hlutverk systranna varð fyrst og fremst að sinna
búi og börnum, annaðhvort sinna eigin eða annarra. Það kom í hlut
Guðrúnar að taka við búsforráðum á æskuheimilinu og uppeldi
tveggja yngstu bræðra sinna eftir lát móðurinnar og síðar gerði hún
það sama á heimili næstelsta bróður síns þegar hann varð ekkill. Hún
giftist ekki, var barnlaus og eignaðist aldrei eigið heimili. Guðný
giftist og eignaðist fjölda barna, varð sýslumannsfrú og húsfreyja á
stóru sveitaheimili í rúman áratug en fluttist þá aftur með fjölskyldu
sinni til Reykjavíkur.
Saga fjölskyldunnar endurspeglar að mörgu leyti nýja tíma á
Íslandi. Foreldrarnir voru samhent í því að bæta þjóðfélagsstöðu sína
og barna sinna, ekki síst með því að koma sonunum til mennta, og
þau eru ágætt dæmi um fólk sem hefur sig upp úr fátækt og tryggir
börnum sínum betri hlut en þau höfðu sjálf notið (og eru því það sem
á ensku hefur verið kalla social climbers). Liður í því var að setjast að í
þéttbýli þar sem þau töldu börnin eiga betri möguleika til menntunar
tunga_23.indb 42 16.06.2021 17:06:48