Saga - 2013, Blaðsíða 88
hann hafi verið nálægur — beðið átekta — í mörg ár. Í ágústmánuði
1824 skrifa þær um móðurmissinn þremur mánuðum fyrr og eru
þau bréf því annars eðlis en janúarbréfin. Og þau spegla ólíka
skapsmuni og lífsskoðanir systranna. Þórunn setur traust sitt á Guð
enda hefur amma „kient mier þetta Fadir og Modir yfirgafu mig enn
þú Drottin varst hia mér“.96 Þórunn grípur mun oftar en Sigríður til
trúarorðræðu í bréfum sínum, því þótt guðsorði bregði fyrir hjá
Sigríði er guðleg forsjón henni ekki ofarlega í huga. Þannig er það í
bréfinu sem hún skrifar 10. ágúst; þótt hún segist sætta sig við vilja
guðs stígur hún fram ákveðin, ef til vill undir styrkri stjórn ömmu,
og segir: „eg vildi ad eg væri horfin til þín æ getur þad ómögulega
latid sig giöra þvi half er nu von af fornu trie þar sem Amma min er
og þá finst mier, mier ekki vera rifskipað hier fyrir austan“.97 Þessir
frasar eiga sjálfsagt uppruna sinn hjá ömmu Sigríði, sem sjálf slær
stundum um sig með orðatiltækjum og vísun í söngtexta og sögur.
Á þann hátt sviðsetur hún sig, eins og bréfritarar gera gjarnan;
bréfin verða öðrum þræði framsetning og stílbrögð sem eiga að gefa
til kynna persónuleika bréfritara eða þá ímynd — eða sjálfsmynd —
sem hann eða hún vill halda á lofti. Sigríður Ørum skrifar til að
mynda Páli í janúar 1825:
Besti Pall min
endilega i giær kveldi undti forsionin mier þeirrar gledi ad sia og lesa
2 þin elskuleg tilskrif þad eina ur ferd sera Asmundar og hitt ur ferd
posta, hafdu hiartans þackir firir þad en nu geingur mier sem vant
er og Petersen söng, allur manns er ævi dans einhverium blandinn
kala …98
Hér er vísað til texta Sigurðar Péturssonar, sýslumanns og
leikskálds, sem um árabil bjó hjá Geir vídalín biskupi vini sínum
líkt og mæðgurnar Sigríður Ørum og Malene. Sigurður var þar að
auki föðurbróðir Páls sýslumanns Guðmundssonar.99
erla hulda halldórsdóttir86
96 Lbs. Lbs. 2415 b 4to. Þórunn Pálsdóttir til Páls Pálssonar 9. ágúst 1824.
97 Lbs. Lbs. 2413 a 4to. Sigríður Pálsdóttir til Páls Pálssonar 10. ágúst 1824.
98 Lbs. Lbs. 2412 a 4to. Sigríður Ørum til Páls Pálssonar 19. janúar 1825.
99 Ljóðlínan er úr Stellurímum Sigurðar Péturssonar: „Allur manns er ævidans /
einhverjum blandinn kala, / og gleði öll hefir oftast göll / og eitur í sínum
hala.“ Sjá: Guðrún Ingólfsdóttir, „„Brjálaður er hann annaðhvert, / eður hann
gjörir bögu“. Um kveðskap Sigurðar Péturssonar sýslumanns“, Vefnir, vefrit:
4. (2004), bls. 6, Vef: http://vefnir.is/UserFiles/File/2004/GudrunIngolfs
dottir-BrjaladurerHann.pdf (skoðað 2. okt. 2013).
Saga haust 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 23.6.2020 15:04 Page 86