Strandapósturinn - 01.06.2009, Síða 41
39
brú yfir Kattarhryggsgilið. Þessi brú er stórmerkileg og vel þess
vert að fara og skoða hana. Til að komast að gilinu verður að vaða
yfir Norðurá en það er ekki fært nema lítið vatn sé í ánni. Heppi-
legast er að fara frá Norðurárbrúnni, aðeins neðar, og ganga vest-
an ár að gilinu. Brú þessi mun hafa verið byggð á árunum 1908 til
1909. Brúarstöplarnir eru hlaðnir úr grjóti og það límt saman
með steypu. Standa þeir mjög vel og bera þeim er þetta verk unnu
á sínum tíma gott vitni. Brúin sjálf er bitabrú úr járnbentri stein-
steypu, fyrsta brúin af þeirri gerð hér á landi. Vegagerðin ætti að
huga að varðveislu þessa mannvirkis, laga upplýsingaskiltið við
þjóðveginn og yfirfara upplýsingar á því.
Ég hef heyrt að þarna hafi verið trébrú áður en þessi var smíð-
uð, en ýmsir draga það í efa. Á bls. 160 í bókinni „Brýr að baki.
Brýr á Íslandi í 1100 ár“ er fjallað um Kattarhrygg og vitnað í
gamlar heimildir. Þar segir meðal annars: „Til er lýsing á vegagerð
þar sem ráðist var í sumarið 1883. „Á Kattarhrygg var langsetis
með hinu mjóa steinhafti er gatan lá eftir, hlaðin brú, að lengd 18
al. [11,2 m] en 4 al. [2,5 m] á breidd, og er brú þessi allstaðar 3
al. [1,90 m] á hæð. Er vegurinn, sem áður lá eftir haftinu aðeins,
þannig nú orðinn samtals allt að 6 al. [3,8 m] breiður; má þannig
álítast hættulaust að fara hann, sé nokkur aðgæsla viðhöfð.““ Þá
er í sömu heimild vitnað til þess að Jón Jónsson norðanpóstur í
Galtarholti ritaði Sigurði Briem póstmeistara bréf 18. júní 1908
þar sem hann lýsir hremmingum sem hann lenti í þegar hann
þurfti að fara yfir Kattarhryggsgilið og fer fram á bætur fyrir póst-
hest sem hann missti þar. Þetta sem hér hefur verið rakið styður
það að brú hafi verið þarna á undan þeirri sem nú stendur og
byggð var 1908 til 1909 en hana gæti hafa tekið af enda ekki há og
ekki verið komin þegar Jón póstur lenti í vandræðum og missti
einn hestinn.
Fyrsti bíllinn fór yfir Holtavörðuheiði í júlí 1927. Þetta var Ford
T vörubíll í eigu Jóns Þorsteinssonar sem þá átti heima í Borgar-
nesi. Í frásögn af þessari ferð er sérstaklega getið um hvað Katt-
arhryggur hafi verið mjór og litlu hafi munað að hjólin stæðu út
af veginum.
Höldum nú áfram eftir þjóðveginum, sem liggur austan Norð-
urár, upp eftir Hellistungunum. Núververandi vegur liggur að-
eins nær ánni en sá eldri. Komið er svo að næstu brú á Norðurá