Strandapósturinn - 01.06.2009, Page 54
52
ekið yfir Miklagil. Þarna er steyptur bogi yfir og síðan fyllt með
jarðvegi yfir og mun þetta vera sá fyrsti af mörgum slíkum sem
áttu eftir að vera byggðir víða um land. Notuð var ný mótatækni,
nokkurs konar skriðmót, þar sem steypt var í áföngum. Vissulega
spáðu sumir ekki vel fyrir þessu. Héldu að opið mundi ekki taka
vatnið í miklum flóðum en það hefur ekki ræst. Gamla brúin stóð
nokkru ofar og hefur nú verið fjarlægð með öllu. Þar yfir liggur
reyndar gamli jarðsímastrengurinn sem áður er getið um. Ég held
að hann þjóni litlu sem engu lengur nema veðurstöðinni á heið-
inni. Rétt neðan við núverandi stokk var allstór steindrangur í
miðju gilinu sem hét Jörundur. Hann er nú fallinn fyrir allnokkr-
um árum, stóðst sennilega ekki álagið þegar straumkastið kom
með svo miklum þunga út um stokkinn.
Miklagilið gat verið erfiður farartálmi fyrr á árum. Fyrir neðan
brúna taka við nánast samfelld gljúfur sem ná niður undir Hrúta-
fjarðará en þar má komast yfir sé ekki mikið vatn í gilinu. Vaðið
var skammt ofan við gömlu brúna. Fyrsta brúin var byggð 1911 úr
steinsteypu. Það var bogabrú sem síðar var svo hækkuð og henni
breytt en boginn hélt sér og bar uppi brúna. Áður en brúin kom
lentu menn þarna stundum í hrakningum. Segir m.a. frá einu
slíku tilviki í Söguþáttum landpóstanna, II. bindi á bls. 122 og
123. Aftur á móti er ekki vitað um neitt dauðsfall í gilinu. Sagt er
að Guðmundur góði Hólabiskup hafi vígt gilið á ferðum sínum
og það hafi dugað allt til þessa dags og vonandi verður svo
áfram.
Þegar horft er til vesturs frá Miklagilsbrúnni blasir Lágafell við
en það er þar skammt fyrir vestan veginn, skyggir á norðurhluta
Tröllakirkju.
Þegar komið er yfir gilið beygir vegurinn aftur aðeins til norð-
austurs og tekur nú að halla niður í Hrútafjörðinn. Þar heita
Grænumýrarhallar. Þegar komið er neðarlega þá sést túnið í
Grænumýrartungu sem liggur þar á bökkum Hrútafjarðarár. Af
byggingum stendur aðeins uppi fjós og hlaða, íbúðarhúsið var
fellt fyrir nokkrum árum. Hér áður var mikill myndarbúskapur,
veitingasala og gisting í Grænumýrartungu en með bílaöld lagðist
það af og býlið fór í eyði árið 1966. Austan Hrútafjarðarár blasir
bærinn Óspaksstaðir við.