Andvari - 01.01.2019, Blaðsíða 95
94 RÓSA ÞORSTEINSDÓTTIR ANDVARI
eru ótalin tengsl þeirra hjóna við stjórnmál og sérstaklega sjálfstæðisbarátt-
una, en Jón var mikill samherji nafna síns, Jóns Sigurðssonar forseta.53 Af
heimildum um þau hjón er ljóst að Hólmfríður hefur staðið þétt við hlið
manns síns á öllum sviðum eins og Einar Laxness bendir á:
Hólmfríður var sú kona, sem var eiginmanni sínum samboðin að öllu atgervi, enda
var hjónaband þeirra farsælt með afbrigðum. Engum getum þarf að því að leiða,
að eiginkona Jóns hefur verið honum sú stoð og stytta, sem aldrei brást, hversu
napurt, sem gustaði um mann hennar. Hún var kona mikilhæf, gáfuð og víðsýn.
Einkanlega var kunnátta hennar og áhugi á þjóðlegum fróðleik margrómað af
samtímamönnum. Á íslenzkum fornbókmenntum, kveðskap og ættfræði kunni hún
góð skil. [...] Fyrir þær sakir var ekki að undra þótt hún þætti kvenna skemmtilegust
í viðræðum, og hlutur hennar í sköpun þessa menningarheimilis er því sem vænta
má ekki lítilsverður.54
Hólmfríður var dóttir séra Þorvalds Böðvarssonar (1758–1836) og þriðju konu
hans, Kristínar Björnsdóttur (1780–1843). Þegar Hólmfríður fæddist sat faðir
hennar að Holti í Önundarfirði, en þegar hún var níu ára fékk hann Mela í
Melasveit og sex árum seinna Holt undir Eyjafjöllum.55 Hún var á barnsaldri
er hún kynntist Jóni Guðmundssyni sem hún síðan gekk að eiga 1836. Þau
reistu sér fyrst bú að Kirkjubæ á Síðu, en fluttu seinna til Reykjavíkur.56
Hólmfríður Þorvaldsdóttir og Sigurður Guðmundsson málari eru einmitt
þeir heimildarmenn sem Jón nefnir langoftast.57 Ljóst er að Sigurður og Jón
Árnason deildu áhuga á mörgum málum sem vörðuðu íslenska menningu
og urðu samstarfsmenn á ýmsum sviðum, svo sem við stofnun og umsjón
Forngripasafnsins, eins og áður hefur verið minnst á. Ekki er að efa að þeir
Jón og Sigurður hafa umgengist mikið á þessum árum, þeir voru til dæmis
saman í mötuneyti hjá Kristjönu Jónassen (Zoëga) veturinn 1859–186058 en
þar var Sigurður einnig skráður til heimilis í manntalinu 1860. Fyrri part vetr-
ar 1861 bjuggu þeir og Matthías Jochumsson síðan í sama húsi og Matthías
segir um þá tvo að þeir hafi verið „báðir gagnteknir og fullir af íslenzkum
fróðleik“.59 Þeir Jón og Sigurður voru oft gestir á heimili Hólmfríðar og þar
hefur Jón einnig hitt marga aðra heimildarmenn sína. Reyndar er það svo að
þegar listinn yfir heimildarfólkið er athugaður nánar sést að eiginlega er hægt
að tengja hvert og eitt þeirra annað hvort við Hólmfríði eða Sigurð málara.
Þjóðsögurnar
Útgáfa Jóns Árnasonar á íslenskum þjóðsögum og ævintýrum frá 1862
og 1864 náði fljótt mikilli útbreiðslu á Íslandi, ekki síst vegna þess að Jón
Sigurðsson lét Bókmenntafélagið kaupa 800 eintök af safninu og senda