Andvari - 01.01.2019, Síða 111
110 SOFFÍA AUÐUR BIRGISDÓTTIR OG ÞÓRA SIGRÍÐUR INGÓLFSDÓTTIR ANDVARI
hugleiðingar niður, líkt og Þórbergur er hann alþjóðasinni, aðhyllist spír-
itisma, hefur mikinn áhuga á grasafæði og heilsufræði, og síðast en ekki
síst er hann einlægur áhugamaður um stjörnufræði og skrímsli. Einnig er
margt í lýsingum á hjónabandi Arons og Hönnu sem minnir á sögusagnir
um hjónaband Þórbergs og Margrétar. Skal nú vikið nánar að „foráttukven-
manninum“ frú Hönnu Eilífs.
Skassið frú Hanna Eilífs
Fyrstu kynni lesenda þríleiksins af Jóhönnu eru þegar fyrri eiginmaður
hennar til fimm ára, Jón Guðjónsson, kemur á fund Páls á skrifstofu Blysfara
í þeim erindagjörðum að biðja hann um að skrifa um „ljótt mál“; óviðun-
andi hegðun fyrrum félaga hans, Dossa Runka sem er „einhleypur skratti
og allra manna sjóhraustastur“ (Gangvirkið, 114). Jón hafði í góðri trú boðið
Dossa Runka með sér heim þar sem þeir sátu saman að drykkju og söng –
og Jóhanna með þeim. Dossi Runka hafði þá „sýnt þeim veskið sitt, bólgið
af seðlum, og endilega viljað gefa Jóhönnu peninga til að kaupa nýjan kjól,
annaðhvort fimmtíu eða hundrað krónur“. Þetta hafði alvarlegar afleiðingar
fyrir hjónaband Jóns: „Konan hans, hún Jóhanna, hafði sem sé breytzt á
nokkrum dögum, orðið stygglynd og ósanngjörn, hæðzt að sjóveiki hans
og framtaksleysi, sumir færu á síld og kæmu aftur með fullar hendur fjár“
(Gangvirkið, 114). Í stuttu máli táldregur Dossi Runka Jóhönnu með því að
ausa í hana peningum sem hún kaupir fyrir „gipshana, rósótta klúta, pils-
gopa, fjaðrahatt og tvær kjólfiður“ og hin kokkálaði eiginmaður er kominn
til Páls til að biðja hann að skrifa um svívirðilega framkomu Dossa í blaðið,
í þeirri von að hann sjái að sér (Gangvirkið, 116). Jón dregur fram ljósmynd
af hinni eftirsóttu konu sinni og kemur hún Páli í opna skjöldu:
Mér hnykkti við, líkt og fyrir mig hefði borið ótrúlegt sköpunarverk í draumi.
Ég leit steini lostinn á Jón Guðjónsson, og síðan aftur á myndina. Andlit þessa
umsetna kvenmanns stendur mér enn í dag fyrir hugskotssjónum, enda jók það svo
lífsreynslu mína og þekkingu í einni svipan, að ég sannfærðist um að höfundur
minn og allrar dauðlegrar skepnu væri öngvan veginn sneyddur gamansemi. Konan
brosti ófeimin á myndinni, svo að skein í mjallahvítar postulínstennur, brosti ekki
beinlínis tilgerðarlega, heldur eins og sigursæll herforingi, sem veit jafnvel af
valdi sínu og snilli meðan hann sefur. Þetta máttuga bros lagði frá munnvikum
út í gríðarlegar kinnar með djúpum fellingum og brotnaði á eyrum konunnar eins
og öldur á skerjum. Undrandi virti ég fyrir mér fádæma hárskóg, lágt enni, kol-
svartar brúnir, smá augu, nef eins og fílsrana, tvær hökur, báðar afsleppar og loks
jarðneskari barm en ég hef séð á nokkurri mynd, eða réttara sagt hvalkynjaðri. Á