Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 16
17
Sighvatur þó með Knúti ríka Sveinssyni, konungi Dana og Englendinga,
sem gerði einnig kröfu til Noregs, þáði gullhring af honum líka og orti um
hann drápu. Síðar kemur fram að Sighvatur var vinur norska héraðshöfð
ingjans Erlings Skjálgssonar, sem var fyrst vinur en síðar andstæðingur
Ólafs konungs. Sighvatur hafði þegið gjafir af Erlingi og orti um hann
eftir að hann féll fyrir liðsmanni konungs. Þá átti Sighvatur enn eftir að
yrkja erfikvæði um Ólaf konung og gerast hirðskáld Magnúsar konungs
sonar hans og yrkja honum Bersöglisvísur.21
Svo að lengra sé haldið, fram á 13. öld, orti Snorri Sturluson kvæði
um Hákon Fólkviðarson galin, jarl á Gautlandi. En jarlinn sendi „gjafir
út á mót, sverð ok skjöld ok brynju“.22 Árið 1219 fór Snorri svo austur
á Gautland og flutti kvæðið Andvöku um Kristínu Nikulásdóttur, ekkju
jarlsins, og var kvæðið ort að bæn jarls. „Ok tók hon sæmiliga við Snorra
ok veitti honum margar gjafir sæmiligar. Hon gaf honum merki þat, er átt
hafði Eiríkr Svíakonungr Knútsson.“23 Í sömu ferð orti Snorri tvö kvæði
um Skúla jarl Bárðarson, sem fór þá nánast með konungsvald í Noregi
sökum æsku Hákonar konungs Hákonarsonar. Þá þáði Snorri að launum
haffært skip og fimmtán stórgjafir.24 Það hljóta að vera hæstu skáldalaun
sem sagt er frá í heimildum. En þess verður að gæta að Skúli jarl var að
leggja drög að því að Snorri kæmi Íslandi undir krúnu konungs, og má því
hugsanlega líta á skáldalaunin öðrum þræði sem mútur.
Eitt þeirra íslensku skálda sem síðast reyndu að vinna sér álit í hirð
Noregskonungs með kveðskap var Sturla sagnaritari Þórðarson. Hann fór
til Noregs árið 1263 og lenti í leiðangri með Magnúsi konungi lagabæti.
Konungur var þá eitthvað fúll við Sturlu, af óþekktum ástæðum, og tók
ekki undir kveðju hans. En drottning, sem var með í för, fékk áhuga á
Sturlu; hún réði því að hann fékk að flytja kvæði um Magnús konung og
lét í ljós álit sitt fyrst manna: „Þat ætla ek, at kvæðit sé vel ort.“ Konungur
efaðist um að hún kynni gerla að heyra það, enda var drottning af dönskum
21 Snorri Sturluson, Heimskringla II, Íslenzk fornrit XXVII, Bjarni Aðalbjarnarson gaf
út, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1945, bls. 54–318 (Óláfs saga ins helga,
43.–176. kap.); Snorri Sturluson, Heimskringla III, Íslenzk fornrit XXVIII, Bjarni
Aðalbjarnarson gaf út, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1951, bls. 20–31
(Magnúss saga ins góða, 9.–16. kap.).
22 Sturlunga saga I, Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu
um útgáfuna, Reykjavík: Sturlunguútgáfan, 1946, bls. 269 (Íslendinga saga, 34.
kap.).
23 Sama rit I, bls. 271–272 (Íslendinga saga, 35. kap.).
24 Sama rit I, bls. 278 (Íslendinga saga, 38. kap.).
DRÖG Að RÉTTARSÖGU ORðLISTAR Á ÍSLANDI