Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 100
103
sínum, sem lýsa gangi mála og hans eigin hugleiðingum, segir hann síðar
frá samtali sínu við Mettu þar sem hann reynir að sannfæra hana um að
ef hann teldi unnt að finna einhvern sem ekki væri eins ósveigjanlegur og
hann sjálfur myndi hann „víkja úr dómarasæti og segja af [sér] embætti“.8
En á sama tíma er hann svo „skelfdur og angraður“ að hann fær „naumast
haldið á pennanum“.9
Við uppgröftinn á líki hins óþekkta manns nægir Eiríki dómara að sjá
klæðin, eyrnalokk og hatt til að sannfærast um að morð hafi verið framið
og að fórnarlambið sé Níels brúsi. Lykilatriðið, eins og nærri má geta, er
að hann hefur á röngu að standa. Undir lok sögunnar kemur í ljós að þótt
presturinn og Níels hafi átt í útistöðum var sá síðarnefndi ekki myrtur. Í
raun mútaði Marteinn bróður sínum til að hverfa af landi brott. Líkið er
af öðrum manni sem nýlega hafði svipt sig lífi. Marteinn, sem ber kala til
Sörens og verðandi tengdasonar hans, hafði sjálfur klætt líkið í föt Níelsar
og grafið það í garði prests að næturlagi. Við verkið dulbjó hann sig í
hempu og sneri baki í vegfarendur svo þeir héldu að þar væri klerkurinn
að verki. Með því að sviðsetja klerk sem morðingja hefndi Marteinn sín á
bæði honum og keppinauti sínum, dómaranum.
Eiríki virðast sönnunargögnin öll benda til sektar Sörens og meðan
á málaferlum stendur safnar hann vitnisburði fólks úr sókninni sem seg
ist hafa beinlínis séð til prestsins grafandi í garðinum að næturlagi. En
Eiríkur lætur hjá líða að gagnspyrja vitnin. Hann kannar ekki hvernig
þau geti verið viss um að hafa séð prestinn en ekki bara einhvern hempu
klæddan mann. Eftir að hafa hlýtt á framburð vitnanna kemst meira að
segja klerkur sjálfur á þá skoðun að hann hafi óafvitandi framið morðið
þegar hann gekk í svefni. Þess vegna gengst hann við glæpnum og er í
kjölfarið dæmdur til dauða og tekinn af lífi. Vélabrögð Marteins brúsa
virðast bera tilætlaðan árangur. Eftir dauða prestsins er brúðkaupi Mettu
og Eiríks aflýst og í kjölfarið syrtir enn frekar í álinn hjá dómaranum.
Dagbókarskrifum hans lýkur skyndilega rétt fyrir aftöku prestsins. Það
er ekki fyrr en mörgum árum seinna, þegar Níels brúsi snýr aftur heim,
langþreyttur á eymdinni í útlöndum, að ljóst verður að dómarinn hefur
látið Martein brúsa blekkja sig. Í þessum síðasta hluta sögunnar tekur
prestur úr nærliggjandi sókn við hlutverki sögumanns. Hann segir frá því
að Eiríkur hafi um margra ára skeið verið einsetumaður, án sinnar ástkæru
8 Steen Steensen Blicher, Vaðlaklerkur, þýð. Gunnar Gunnarsson, Reykjavík: Al
menna bókafélagið, 1964, bls. 44.
9 Sama rit, bls. 23.
LöG OG BóKMENNTIR Í DöNSKU SAMHENGI