Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 145
121
– Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherj-
arreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna
eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsyn-
legar og samrýmist lýðræðishefðum.
Í bók sinni Stjórnskipunarréttur: Mannréttindi bendir Björg Thorarensen
prófessor við lagadeild Háskóla Íslands á að oftast reyni á umræddar
takmarkanir tjáningarfrelsisins með tilvísun í „réttindi og mannorð ann-
arra“.2 Er þá meðal annars vísað til meiðyrðalöggjafarinnar og þeirrar
refsiverndar sem veitt er í ákvæðum í almennum hegningarlögum sem
fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.3 Í dæmunum
sem fjallað er um í þessari grein reyndi helst á sex greinar þessara laga:
229. gr. Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars
manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verkn-
aðinn, skal sæta sektum eða [fangelsi] allt að 1 ári.
234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í
orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum
eða [fangelsi] allt að 1 ári.
235. gr. Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem
verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun
út, þá varðar það sektum eða [fangelsi] allt að 1 ári.
236. gr. Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út
gegn betri vitund, þá varðar það […] fangelsi allt að 2 árum.
− Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sak-
aráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá
varðar það sektum […)] eða fangelsi allt að 2 árum.
237. gr. Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis,
þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.
2 Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur: Mannréttindi, Reykjavík: Bókaútgáfan
Codex, 2008, bls. 350.
3 Lögfræðingar hafa undanfarið rætt breytingar á þessum greinum, enda hefur
það nær aldrei gerst að menn þurfi að sæta refsingu á borð við fangelsisvist fyrir
ærumeiðingar samkvæmt 234.–236. greinum almennra hegningarlaga sem fjalla um
ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Yfirleitt eru ummæli dæmd dauð
og ómerk en í stöku tilviki þurfa hinir stefndu að greiða fjársektir. Þetta kemur
til dæmis fram í viðtali við Eirík Jónsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands. Sjá
„Kastljós“, Ruv.is, 2. maí 2016, sótt 13. mars 2018 af http://www.ruv.is/sarpurinn/
klippa/meidyrdamal-og-kynferdisbrot.
SAnnAR ÍSLEnSKAR SöGUR?