Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 110
113
hve þessi viðbrögð dómarans eru snúin gerir söguna að góðu bókmennta
verki og áhugaverðri hugleiðingu um lögin. ,Niðurstaða‘ Vaðlaklerks er
ekki eingöngu sú að lögin séu alltaf háð skeikulli túlkun mannanna heldur
einnig að tilfinningaleg tengsl og frásagnarþrá geti sveigt þau til. Lögin
eru ekki einfaldlega það sem þau eru.
Vangaveltur um dauðarefsingar
Ein gáfa Blichers sem höfundar var að geta fléttað fjölmörgum þráðum
flókins samfélags saman í flókinni frásögn. En sagan felur líka í sér skýra
og beinskeytta gagnrýni á dauðarefsingar sem voru enn við lýði á hans
dögum.34 Gagnrýni Blichers á dauðarefsingar er gjarnan túlkuð sem hluti
af mannhyggju hans. Slíkt kemur ekki á óvart þar sem Blicher vísaði sjálfur
oft til húmanískra hugmynda Upplýsingarinnar. En danskir gagnrýnendur
hafa hneigst til að leggja siðferðilegan skilning í mannhyggju Blichers,
sem veldur því að minna hefur verið rætt um skilning hans á dauðarefsing
unni sem stofnun. Þessa afstöðu má finna í þeirri túlkun á sögu Blichers
sem oftast er vitnað til, þar sem því er haldið fram að gagnrýni höfund
arins á dauðarefsingar birtist í hnotskurn í eftirfarandi orðum prestsins
frá Álatjörn: „Hvernig má það vera, að nokkur maður skuli treysta sér til
þess að gerast banamaður bróður síns úr dómarasæti!“35 Ein af augljósum
ábendingum í sögunni er sú að dauðarefsingar séu óafturkræfar, þannig að
þegar réttarmorð er framið sé dómarinn sjálfur orðinn „morðingi“, með
vitað eða ómeðvitað. En Blicher hefur líka áhuga á dauðarefsingunni sem
lagalegri stofnun, persónubundnum og samfélagslegum áhrifum hennar
og hættunum sem felast í að gera aftökur að opinberu sjónarspili. Þetta er
ekki eins augljóst í sögunni en engu að síður mikilvægt.
34 Dauðarefsingar voru lagðar af í Danmörku árið 1930. Síðasta borgaralega aftakan,
á friðartímum, fór fram árið 1892. Dauðarefsingar voru svo aftur leyfðar eftir seinni
heimsstyrjöld og síðasta aftakan fór fram árið 1950.
35 Steen Steensen Blicher, Vaðlaklerkur, bls. 85. Søren Baggesen skrifar: „Hver dirfist
að segja við bróður sinn, „Þér eigið dauðann skilið?“ Maðurinn er svo hættuleg
vera, tengsl manna svo flókin og mannúðin svo takmörkuð að menn sjá ekki
undirstöður raunveruleikans. Af þeim sökum þorir enginn maður að kveða upp
dauðadóm yfir öðrum.“ („Ak! Hvad er dog et Menneske, at det tør opkaste sig
til Bloddommer over sin Lige? Mennesket er et så farligt væsen, dets indbyrdes
relationer er så komplicerede, og dets menneskelighed er så begrænsende, at det
ikke kan se til bunds i sin egen virkelighed. Derfor tør det heller aldrig dømme
noget menneske fra livet.“). Sjá Søren Baggesen, Den blicherske novelle, Árósar:
Aarhus University Press, 1962, bls. 308.
LöG OG BóKMENNTIR Í DöNSKU SAMHENGI