Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 67
70
Almennu kirkjulögin, sem höfðu verið samþykkt af keisara árið 1215
(gefin út 1234), gerðu ráð fyrir að kirkja væri stofnun sem hefði sjálfstætt
vald yfir andlegum hlutum. Með því hafði hin gamla hugmynd um frelsi
kirkju verið endanlega staðfest sem lagalegur og pólitískur veruleiki sem
vesturkristin ríki urðu að taka afstöðu til hvert um sig. Frelsi kirkju þýddi
að veita þyrfti kirkju sjálfstætt löggjafarvald og dómsvald innan hvers ríkis
um andlega hluti, sem samkvæmt lögunum voru hvaðeina sem viðkom
kristni og ástundun trúarbragðanna, þar með talið stofnunin sjálf og emb-
ættismenn hennar. Til þess að kirkjan nyti sjálfstæðis gagnvart veraldlegu
valdi í hverju ríki var nauðsynlegt að koma því svo fyrir í stjórnskipan og
lögum að stofnunin gæti starfað samkvæmt almennu kirkjulögunum. Í
pólitísku samhengi var umdeildast að samkvæmt þeim átti kirkja rétt til að
skipa eigin embættismenn og ráða öllum málum þeirra, sem og kirkna og
eigna sem þeim fylgdu, og hafa dómsvald yfir þeim.
Konungar áttu aðeins tveggja kosta völ; að gangast inn á svipaðan
samning við stofnunina og keisari hafði gert, eða teljast að öðrum kosti
aðhyllast villutrú og yrðu ríki þeirra þá ekki aðilar að vestrænni kristni.
Vegna þess að málefni kristni og kirkju höfðu í raun verið í höndum leik-
manna þurfti samningur um rétt kirkju að bera í sér að leikmenn afsöluðu
sér öllum kröfum til valds yfir andlegum hlutum. Slíkur samningur fól í
sér viðurkenningu á gildi almennu kirkjulaganna innanlands og því að páfi
réði kirkjustofnuninni, klerkum hennar og eignum. Þetta yrði ekki gert
án þess að stokka upp skipan valds með tilheyrandi lagabreytingum. Með
Magna Carta höfðu aðalsmenn á Eng landi þegar árið 1215 náð að mynda
mótvægi við konungsvald því að samkvæmt þeim samn ingi urðu sumar
ákvarðanir konungs háðar samþykki aðalsmannanna. Stefna Noregs kon-
unga var hins vegar að valdið skiptist einvörðungu milli konungs og kirkju
sem myndi leiða til rýrn unar á höfðingjavaldi og því er ljóst að í þessum
málum fóru hagsmunir konungs og höfðingja ekki að öllu leyti saman.
Í Noregi hefst formleg saga aðlögunar ríkisins að nýjum kirkjulögum
með heimsókn eins helsta sendimanns páfa, Vilhjálms kardínála, til lands-
ins árið 1247 þar sem hann krýndi konung að viðstöddu fjölmenni. Þarna
voru tekin fyrstu skrefin að samningum um sjálfstæði kirkju í ríkinu eins og
sést í skipan sem kardínálinn sendi frá sér í kjölfar samninganna.8 Í þessum
8 Skipan Vilhjálms kardínála (Privilegium Wilhelmi Sabinensis), prentuð á latínu og í
norrænni útleggingu: DI I 546– 574. Latínuþýðing á texta skipunar Vilhjálms kard-
ínála frá 1247 bendir til þess að frelsi kirkju hafi nánast verið skilið sem samheiti
við andlega hluti. Pacificá libertate juristictionis omnium causarum spiritualium, DI I
Lára Magnúsardóttir