Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 83
86
Lofti hafi einum níu menninganna verið stefnt fyrir konung í raun. Það var
undir þessum kringumstæðum sem hann hélt af stað til Björgvinjar í lok
sumars 1282.
En vegna þess að Loftur hafði komið sér undan þingi hafði honum ekki
verið stefnt formlega utan. Hélt hann því ekki utan sem landráðamaður
heldur til þess að beiðast úrskurðar konungs um hvort „honum sýndist
hann í nokkru brotlegur orðinn. Herra biskup ritaði og með honum til
herra Eiríks kóngs“ (92). Svar konungs við þessu yrði í raun jafnframt svar
við uppástungu Árna um miðlun mála frá Eyrasandsfundinum.
III Stjórnmálaástandið 1282
Árna biskupi virðist hafa dottið í hug að fara einnig til Björgvinjar með
Lofti, að minnsta kosti átti Loftur að koma þeim skilaboðum á framfæri
„að ferð [biskups] dvaldist sakir tilfellis, en ei af illvilja við kóng“ (92). Lét
biskup sér nægja að skrifa konungi bréf og senda með Lofti. Hafa þeir
ætlað að með því yrði hægt að leiða til lykta mál níumenninganna allra.
Þar misreiknuðu þeir sig allhrapallega og varð úr hin mesta sneypuför
enda hafði óvildarmönnum kirkjuvalds í Noregi heldur betur hlaupið kapp
í kinn. Norskir biskupar höfðu verið lýstir útlægir ásamt erkibiskupi, sem
hafði farið frá Björgvin í júní 1282 og var hrakinn af landi brott í septem-
ber. Jafnhliða afturkallaði ríkisráðið leyfi sem kirkju hafði verið veitt til
myntsláttu í sættargerðinni 1277 og þá hófst af fullum þunga stríð leik-
manna gegn kirkjuvaldi með fulltingi konungs.49
Fréttir af þessu höfðu ekki borist til Íslands og þegar Loftur kom til
Björgvinjar haustið 1282 var flest öðruvísi en þeir biskup höfðu búist við.
Við konung fékk Loftur ekki að tala annað en að „heilsa á hann“, en „stóð
undir heitum og illyrðum“ hirðmanna (92–93). Loftur kom bréfinu frá
biskupi ekki í hendur konungs fyrr en í október og þá ekki í kóngsgarði
því að þar var honum bannaður aðgangur, heldur á Jónsvöllum (92), sem
var landareign Jóns klausturs.50 Með töfinni og viðtöku bréfsins utan kon-
ungsgarðs sýndi konungur í verki að hann liti ekki svo á að kirkjuvald hefði
formlega stöðu í ríkinu og Loftur naut að sjálfsögðu einskis til styrks frá
klerkunum burtræku.
49 Svein H. Gullbekk, Pengevesenets fremvekst og falli i Norge i middelalderen, Kaup-
mannahöfn: Museum Tusculanum Forlag, 2009, bls. 117.
50 Stine Arctander Kristensen, „A Medieval Town“, bls. 38. Þar er vitnað til Knut
Helle, Bergen bys historie I. Kongssete og kjøpstad: Fra opphavet til 1536, Osló:
Universitetsforlaget, 1982, bls. 290.
Lára Magnúsardóttir