Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 165
170
á vettvangi akademískrar guðfræði. Uppruna siðbótarhreyfingarinnar má
sem kunnugt er rekja til 95 greina eða yrðinga sem Lúther kann að hafa
neglt upp á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg kvöldið fyrir allraheilagra
messu 1517.17 Megintilgangur þeirra var ugglaust að koma af stað akadem-
ískri umræðu um efni þeirra sem einkum laut að guðfræðilegum rökum
gegn sölu aflátsbréfa sem Lúther eins og svo margir aðrir á þessum tíma
taldi að hefði farið úr böndum.18
Hafi Lúther í raun neglt greinarnar á hurðina en ekki látið nægja
að senda þær helsta trúnaðarmanni páfa á svæðinu, erkibiskupinum í
Mainz, gæti það bent til að ekki hafi einvörðungu vakað fyrir honum að
hleypa af stað umræðu í kirkjunni og/eða háskólasamfélaginu heldur hafi
önnur markmið einnig ráðið för og þá einkum að ná athygli almennings.
Greinarnar voru þó upphaflega birtar á latínu, alþjóðamáli háskólans, og
ekki þýddar á þýsku fyrr en 1518 en hlutu þá skjóta útbreiðslu með til-
styrk prenttækninnar.19 Bendir það til að þeim hafi í upphafi verið beint
að háskólasamfélaginu. Hvort sem áróðurs- eða almannatengslasjónarmið
lágu til grundvallar þýðingunni er ljóst að siðbótarhreyfingin var upphaf-
lega akademísks eðlis. Hún fjallaði um guðfræðilegar túlkanir á umdeildu
kenningaratriði sem talið var hafa umtalsverð efnahagsleg áhrif m.a. í
Þýskalandi þaðan sem stórfé streymdi úr landi til Rómar vegna framgöngu
aflátssala sem Lúther áleit hafa farið út fyrir umboð sitt hvað svo sem valdi
páfa til aflausnar af syndum annars liði. Þá snerist gagnrýni Lúthers ekki
aðeins að hreinum guðfræðilegum atriðum heldur einnig að kennslufræði
háskólanna einkum í guðfræði og lögfræði og þá aðallega í kirkjurétti.20
17 Eins og við er að búast hefur skjalið sem neglt var á kirkjuhurðina ekki varðveist.
Því verður þessi sögn ekki staðfest endanlega. Sjá Gunnar Kristjánsson, Marteinn
Lúther, bls. 10, 76–77. Enn er á hinn bóginn venja við ýmsa háskóla að negla upp
útdrátt úr doktorsritgerðum sem búið er að samþykkja til varnar. Sú forna venja
rennir stoðum undir sögnina. Fyrstu sjö greinarnar fjalla um yfirbótina, gr. 8–29
um aflát frá hreinsunareldinum, gr. 30–80 hafa að geyma gagnrýni Lúthers á afláts-
söluna almennt en gr. 81–95 rekja áður fram komna gagnrýni á aflátið. Jóhann
Hannesson, „Siðbótargreinar Lúthers, sem festar voru upp á hurð hallarkirkjunnar
í Wittenberg 31. október 1517“, Orðið 9. árg., 1/1973, bls. 3–7, 30. Carsten Bach-
Nielsen, „1500–1800“, Kirkens historie 2, Kaupmannahöfn: Hans Reitzels forlag,
2012, bls. 17–381, hér bls. 39.
18 Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther, bls. 70–80.
19 Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther, bls. 77.
20 Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar: Um siðbót þeirrar kristilegu
stéttar árið 1520, ísl. þýð. og inng. eftir Vilborgu Auði Ísleifsdóttur, Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag, 2012, bls. 159–170.
Hjalti Hugason