Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 179
184
á hér framar skorti þó alveg þær „nýju“ stéttir sem fyrstar gengu siðbót-
inni á hönd erlendis og hrundu af stað hreyfingu í átt til siðaskipta. Er
þar einkum átt við menntamenn sem þrengdu að aðlinum og drógu úr
áhrifum hans, háskólamenntaða guðfræðinga og lögfræðinga sem þjónuðu
kirkjunni og ríkinu og unnu að siðaskiptum og þróun miðstýrðs einveldis
á svipuðum tíma. Hér er einnig átt við millistéttir í þéttbýli, verslunar- og
handverksmenn, sem ryðja þurftu sér til rúms á kostnað bænda. Þessar
stéttir voru einnig opnar fyrir hugmyndum siðbótarmanna sem bárust
frá háskólum og ruddu sér til rúms í vaxandi þéttbýli. Hér á landi gætti
engrar félagslegrar spennu í líkingu við þá sem víða var að finna í evr-
ópskum borgum en komu einnig í ljós til sveita t.d. í bændauppreisnum
í Þýskalandi. Hér gætti vissulega nokkurrar spennu milli kirkjunnar og
höfðingja í landinu. Líklegt er þó að þar hafi oft verið um að ræða árekstra
þar sem hagsmunum veraldlegra höfðingja og kirkjulegra laust saman í
samkeppni um jarðeignir og önnur efnahagstengd atriði þótt einnig væri
tekist á um valdmörk kirkjulegra og veraldlegra valdahafa.58
Eru þá ótaldar allar þær ástæður sem líta má á sem kirkjulegar og juku
teygjuna í siðaskiptaþróuninni. Vissulega skortir mikið á þekkingu okkar á
kirkjulegum aðstæðum hér á landi á síðmiðöldum. trúar- og/eða guðfræði-
leg gagnrýni á kirkjuna virðist þó hafa verið hverfandi og líklega mun færri
tilefni verið til slíks úti hér en víða erlendis. Aflátssala var t.a.m. ekki rekin
hér neitt í líkingu við það sem Lúther reis upp gegn í heimahögum sínum
í öndverði siðbótinni.59 Kirkjulegar aðstæður hér virðast því hafa verið
öllu friðsamlegri en víða erlendis t.a.m. í stærstu borgum Danaveldis.60
innlendar, kirkjulegar aðstæður kölluðu því ekki fram siðbótarhreyfingu
frekar en hinar félagslegu.
Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt má ekki draga þá ályktun að
landið hafi verið einangrað á siðaskiptatímanum og að hingað hafi ekki
borist áhrif frá siðbótinni. Héðan sóttu ávallt einhverjir utan til náms og
dvöldu þá lengur eða skemur m.a. við þýska háskóla.61 Þar á meðal má
nefna Jón Einarsson (um 1494–1539) í Odda sem hugsanlega varð fyrst-
58 Þessa spennu má m.a. sjá í Leiðarhólmsskrá. Vilborg Auður Ísleifsdóttir, Byltingin
að ofan, bls. 108–113.
59 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi ii, ritstj.
Hjalti Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 136–139.
60 Martin Schwarz Lausten, Danmarks kirkehistorie, Kaupmannahöfn: Gyldendal,
1983, bls. 117–123.
61 Jónas Gíslason, Utanfarir Íslendinga til háskólanáms fyrir 1700. Fylgirit Árbókar
Háskóla Íslands 1981, Reykjavík: Háskóli Íslands, 1983.
Hjalti Hugason