Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 146
122
240. gr. Sé ærumeiðingum beint að dánum manni, þá varðar það
sektum eða [fangelsi allt að 1 ári].
Tjáningarfrelsið er nauðsynleg forsenda opinnar þjóðfélagsumræðu og
því getur verið vandasamt að dæma í málum er varða friðhelgi einkalífs
og æru einstaklinga. Björg tekur fram að í slíkum málum skipti „einkum
máli í hvaða samhengi tiltekin ummæli eru sett fram, hvert er eðli þeirra
og tilgangur og ekki síður á hvaða vettvangi tjáningin kemur fram“.4 Í
dómum í meiðyrðamálum hefur megináherslan verið lögð á að meta hvort
takmörkun tjáningarfrelsisins sé nauðsynleg.5 Því skiptir máli hvers eðlis
ummælin eru, hvaða tilgang þau hafa og á hvaða vettvangi þau birtast, t.d.
hvort þau birtist í fjölmiðli, sagnfræðilegu verki eða í skáldsögu. Það er þó
í raun 2. málsgrein í 26. grein hegningarlaga sem helst er vísað til í meið-
yrðamálum nú um stundir: „Heimilt er að láta þann sem [...] ábyrgð ber
á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns
greiða miskabætur til þess sem misgert var við.“
Í 236. grein kemur fram að ekki megi bera út ummæli sem eru ósönn,
eða gegn betri vitund þess sem tjáir sig. Í meiðyrðamálum skiptir því máli
að greina á milli gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir.6 Með gildis-
dómum er átt við mat á staðreyndum eða þegar einstaklingur tjáir persónu-
lega skoðun sína. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið það óheimila
skerðingu á tjáningarfrelsi að refsa manni fyrir meiðandi gildisdóm á þeirri
forsendu að sannleiksgildi ummælanna hafi ekki verið sannreynt. Það er,
ekki má refsa manni fyrir að hafa sagt skoðun sína á þeirri forsendu að
skoðunin hafi ekki verið sönnuð. Þá kemur 229. grein hegningarlaga einn-
ig við sögu í slíkum málum þar sem sagt er að sá sem skýri opinberlega frá
einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er
réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi. Þá þarf einnig að taka
afstöðu til þess hvort ummæli séu ærumeiðandi. Sá sem tjáir skoðun sína
eftir bestu vitund verður ekki dæmdur fyrir ósönn ummæli.7 Sönnun leysir
þó ekki viðkomandi undan refsingu, ef komist er að þeirri niðurstöðu að
ummælin brjóti á friðhelgi einkalífs þess sem rætt er um.
4 Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur, bls 377–378.
5 Sama heimild, bls. 378.
6 Sama heimild, bls. 384.
7 Þetta er ekki án undantekninga – jafnvel í tilviki gildisdóma eru tilteknar kröfur
gerðar. Sama heimild.
GuðRún BaldvInsdóttIR oG sólveIG ásta sIGuRðaRdóttIR