Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 35
36
þangað sem konungkjörinn þingmaður. Til þeirrar stöðu hefur hann verið
valinn af Hannesi Hafstein, og má því geta sér þess til að Jón hafi staðið
á bak við stjórnarfrumvarpið um höfundarrétt. Ekki er tóm til að kanna
það að þessu sinni, enda skiptir það ekki miklu máli. Hinu má slá föstu að
formlegur, lögbundinn höfundarréttur hafi ekki verið á dagskrá Íslendinga
fyrr en í kringum aldamótin 1900.
Hér lítur út eins og tíðindalaust hafi verið á þessu sviði í sex hundruð
sumur, frá lögtöku Jónsbókar til frumvarps Jóns Ólafssonar. Væntanlega
stafar það að einhverju leyti af ókunnugleika höfundar. Ég er einfaldlega
ekki kominn lengra með þetta mál. Hins vegar finnst mér engan veginn
ólíklegt að íslensk miðaldasaga geti lagt eitthvað til málanna í réttarsögu
orðlistar í heiminum. Óneitanlega átti orðlistin sérstakt blómaskeið á vest
urnorrænu málsvæði á hámiðöldum, skeið sem leið undir lok á síðmið
öldum. Þess vegna er ekkert ólíklegt að þar megi finna heimssögulegar
nýjungar í réttarsögu orðlistar, hliðstæðar þeim sem er drepið á í öðrum
menningarheimum hér á undan.
Ú T D R Á T T U R
Drög að réttarsögu orðlistar á Íslandi
Í íslenskum miðaldalögum eru engin ákvæði um höfundarrétt. Höfundar nýttu sér
hiklaust sögutexta annarra án leyfis, en skáld þáðu laun fyrir að yrkja lofkvæði um
konunga og sagnamenn fyrir að skemmta með sögum við hirð Noregskonungs.
Sagnalist varð sérgrein Íslendinga, og Íslendingar voru ráðnir til að skrifa sögur
norskra konunga. Ámælisvert þótti að nota kveðskap annars manns sem eigið verk.
Talið hefur verið að tvö norsk skáld, Eyvindur skáldaspillir og Auðunn illskælda,
hafi fengið viðurnefni sín af því að þeir hafi gert það. Íslendingurinn Þormóður
Kolbrúnarskáld orti lofkvæði um konu en sneri því síðan upp á aðra konu og hlaut
hefnd fyrir. Í íslenskum sögum er mikið um vísur og ólíkt lausu máli er oftar en ekki
sagt hver hafi ort. Í íslenskum miðaldalögum er ekki aðeins bannað að yrkja last um
menn heldur einnig lof. Hugsanlega hefur skáldskapur verið talinn gefa skáldinu
vald yfir þeim sem ort var um. En eiginlegur höfundarréttur kom ekki inn í íslensk
lög fyrr en í upphafi 20. aldar.
Lykilorð: höfundarréttur, orðlist, ritlaun, ritstuldur, last, lof
Gunnar Karlsson