Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 141
162
kúgandi fyrir annan málsaðilann. Lesendum er síðan látið eftir að dæma
hvort slíkt sé réttlætanlegt í ofbeldismálum sem dómstólar eru ófærir um
að takast á við.
Ljóst er að bókmenntir geta brugðið upp ýmsum myndum af marg-
brotnu réttlæti eða ranglæti og tekið þátt í nauðsynlegri umræðu um lög
og réttlæti. Dómstólar réttarríkja eru stofnanir sem borgarar verða að
geta treyst, en aðalpersónur skáldsagnanna Kata og Gott fólk eru sammála
um að íslenskt réttarkerfi sé ekki í stakk búið til að framfylgja réttlæti í
kynferðisbrotamálum.
ú T D R Á T T U R
Heimatilbúið réttarkerfi
Birtingarmynd hefnda í skáldsögunum Kötu
eftir Steinar Braga og Góðu fólki eftir Val Grettisson
Í þessari ritgerð er reynt að greina birtingarmynd hefnda í tveimur nýlegum skáld-
sögum, Kötu eftir Steinar Braga og Góðu fólki eftir Val Grettisson. Eru þær settar í
samhengi við umfjöllun um hefndarbókmenntir og -kvikmyndir á rannsóknarsviði
laga og bókmennta. Báðar skáldsögur fjalla um hefndir í kjölfar grófrar kynferðis-
legrar misnotkunar og er greint hvernig þessi sama hefnd tengist umræðu um getu-
leysi íslenska réttarkerfisins til að takast á við kynferðisbrot. Í samnefndri skáldsögu
missir kata fótanna í lífinu eftir að dóttur hennar er rænt, nauðgað og hún myrt.
Hún ákveður að hefna fyrir glæpinn og myrðir því gerendurna, einn af öðrum.
Í gegnum söguna er reynt að gera lesendum ljóst að hefndin sé þjóðþrifaverk, en
þrátt fyrir það er óljóst hvort hún sé réttlát. Í Góðu fólki er Sölvi látinn ganga í
gegnum ábyrgðarferli eftir að Sara ásakar hann bæði um andlegt og líkamlegt
ofbeldi meðan á sambandi þeirra stóð. Sölvi upplifir ferlið sem hefnd, en þar sem
hann er óáreiðanlegur sögumaður er lesendum látið eftir að dæma hvort slíkt ferli sé
réttlætanlegt í málum sem dómstólar eru ófærir um að takast á við. Báðar sögurnar
fjalla um möguleg viðbrögð við ríkjandi stöðu bæði í samfélaginu og réttarkerfinu
og skapa þannig grundvöll fyrir frekari umræðu um kynferðisbrot, dómskerfi, hefnd
og réttlæti.
Lykilorð: Lög og bókmenntir, takmörk löggjafa og réttarkerfis, hefnd, ábyrgðarferli,
Kata, Steinar Bragi, Gott fólk, Valur Grettisson
Einar Kári Jóhannsson