Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 173
178
aldamótin 1900 er ríkið tók að ábyrgjast laun þeirra gegn yfirráðum og
síðar eignarrétti á kirknajörðum undir lok 20. aldar.43 Fullyrðingar þess
efnis að kirkjan hafi í einu vetfangi verið svipt eignum sínum við siðaskipti
eru því stórlega yfirdrifnar svo vægt sé til orða tekið.44 Þá ber þess að gæta
að tekjur og önnur fjárhagsumsvif einstakra kirkjulegra stofnana, þar á
meðal sóknanna, voru mjög mismunandi eftir því hvaða eignahöfuðstóll
fylgdi hverri og einni. Leiddi þetta m.a. til þess að efnahagur presta var
mjög ójafn og stéttin margklofin ekkert síður en bændastéttin. Á siða-
skiptatímanum hafa því vissulega verið til kirkjumenn sem deildu kjörum
með stórlandeigendum og „embættismönnum“. Aðrir hafa deilt kjörum
með lakar settum bændum og jafnvel búið við fátækt.45
Spurningin um hvort kirkjan og þá einkum biskuparnir hafi verið „rúin
völdum“ við siðaskipti er jafnvel enn flóknari. Vissulega dró lúthersk guð-
fræði úr sérstöðu biskupa í hópi klerka. Í lútherskum kirkjum er t.a.m.
ekki litið svo á að biskupsvígsla sé í eðli sínu annað en vígsla til prestsemb-
ættis.46 Þá var eins og fram er komið keppikefli í danska ríkinu og raunar
víðar að setja fjárhags- og félagslegri stöðu biskupa ný og hóflegri mörk en
verið hafði. Loks skyldi embættistitli biskups breytt í súperintendent (til-
sjónarmaður) og biskupinn þar með gerður að nokkurs konar yfir-prófasti
í kirkjunni.47 Álitamál er aftur á móti hvernig til tókst með framkvæmdina
ekki síst hér á landi. Staða fyrstu evangelísku biskupanna var vissulega tví-
sýn enda leiddu siðaskiptin til margháttaðrar tímabundinnar upplausnar á
fjölmörgum sviðum.48 Rammast kvað að þessu í tíð Marteins Einarssonar
(biskup 1549–1556) sem sagði af sér embætti tuttugu árum fyrir dauða
43 Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann,
Kristni á Íslandi iV, ritstj. Hjalti Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 9–195,
hér bls. 73–74. Samkomulag um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfs-
manna þjóðkirkjunnar 10. janúar 1997, kirkjuthing.is, sótt 31. ágúst 2017 af http://
kirkjuthing.is/log-og-reglur/adrar-heimildir/samkomulag-um-kirkjujardir-og-
launagreidslur-presta-og-starfsmanna-thjodkirkjunnar-10-januar-1997/.
44 Sjá Árni Daníel Júlíusson, Jarðeignir kirkjunnar, bls. 244.
45 Ekki eru tök á að áætla tekjur presta á 16. öld. Rannsóknir sem taka til síðari tíma
sýna á hinn bóginn margfaldan tekjumun sem ekki er ástæða til að ætla að hafi
verið nýlega til kominn þótt tekjuupphæðir hafi auðvitað breyst í tímans rás. Hjalti
Hugason, Bessastadaskolan: Ett försök till prästskola på Island 1805–1846, Uppsala;
Uppsala universitet, 1983, bls. 37–42.
46 Einar Sigurbjörnsson, Orðið og trúin: Trúfræðiþættir, Reykjavík: [án útg.], 1976, bls.
39–66.
47 „Den danske kirkeordinans, 1539 („Den rette ordinants“), bls. 218–222.
48 Sjá Hjalti Hugason, „Siðbót og sálarangist. Um ofbeldi spennu, átök og hrun á
siðbótartímanum“, Skírnir, 189. ár, vor/2015, bls. 53–85, hér 67–76.
Hjalti Hugason