Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Blaðsíða 161
166
fjölga þar með þeim sjónarhornum sem vonandi verður beitt við rann-
sóknir á þessu sviði á komandi tímum.
Siðbótarhreyfingin spratt upp úr kviku árnýaldar og var skilgetið
afkvæmi hennar en árnýöld spannar tímabilið frá lokum miðalda til iðn-
byltingar. Á því skeiði urðu margháttaðar breytingar í Evrópu. Má þar
nefna vísindabyltinguna sem var forsenda síðari tíma raunvísinda, upp-
runa kapítalíska hagkerfisins og ekki síst hugmyndirnar um þjóðríkið.
Siðbótarhreyfingin er meðal langæjustu og áhrifaríkustu fyrirbæranna frá
þessu skeiði. Enn eru t.a.m. starfandi lútherskar kirkjur víða um heim en
þær telja hugmyndaheim Lúthers liggja til grundvallar starfi sínu. Þar
á meðal er íslenska þjóðkirkjan. Jafnvel er enn litið á Norðurlöndin og
nokkur fleiri ríki sem lúthersk í ýmsu tilliti þótt vart eigi það lengur við
um stjórnskipan þeirra nema í táknrænu tilliti og þá einkum í norrænu
konungdæmunum.3 Í ljósi þess er ástæða til að spyrja hvað það merki á
21. öld að heil, alþjóðleg kirkjudeild sem og félagslegar og menningar-
legar aðstæður í þeim heimshluta sem við Íslendingar tilheyrum skuli enn
kenndar við nafngreindan einstakling af holdi og blóði sem uppi var á 16.
öld. Gildir þá einu hvaða veruleiki kann að búa að baki þeirri nafngift nú.4
Eðlilegt hlýtur að teljast að spurt sé: Hvað lagði Lúther eða öllu heldur sú
siðbótarhreyfing sem hann hratt af stað til trúarlegrar, sögulegrar, menn-
ingarlegrar og samfélagslegrar þróunar í Norður-Evrópu og síðar víðar
um heim? Er þá einkum spurt hvort hinn lútherski arfur hafi ráðið úrslit-
um varðandi tilurð þeirra samfélags- og stjórnarhátta sem ráða enn að ein-
hverju leyti ríkjum hér á landi, á Norðurlöndum og annars staðar þar sem
3 Í stjórnarskrám Danmerkur og Svíþjóðar kemur fram að konungar þessara landa
skuli tilheyra lúthersku kirkjunni. Danmarks Riges Grundlov af 5. juni 1953,
(6.gr.), danmarkshistorien.dk, sótt 29. ágúst 2017 af http://danmarkshistorien.dk/
leksikon-og-kilder/vis/materiale/danmarks-riges-grundlov-af-5-juni-1953/#note1.
Successionsordning (1810:0926); Svensk författningssamling 1810:0926 (4. gr.),
Riksdagsforvaltningen.se, sótt 29. ágúst 2017 af https://www.riksdagen.se/sv/doku-
ment-lagar/dokument/svensk-forfattningssamling/successionsordning-18100926_
sfs-1810-0926. Áhorfsmál er hvort líta megi svo á að þessi ríki séu lúthersk af þess-
um sökum. Ákvæðin fela einkum í sér að þjóðhöfðinginn skuli deila hefðbundinni,
trúarlegri menningu meirihluta þjóðarinnar. Sjá Jonatan Sverker, „Kungen måste
vara lutheran“, dagen.se, sótt 29. ágúst 2017 af http://www.dagen.se/dokument/
kungen-maste-vara-lutheran-1.112059. Ekki er litið svo á að þjóðkirkjugrein (62.
gr.) íslensku stjórnarskrárinnar skuldbindi íslenska ríkið umfram það að styrkja og
vernda þjóðkirkjuna eða geri það á annan máta lútherskt.
4 Hjalti Hugason, „Hvenær urðum við lúthersk og hvenær hættum við að vera það?
Leit að viðmiðum í siðaskiptasögu Íslendinga“, Ritið 2/2016, bls. 77–105, hér bls.
86–93.
Hjalti Hugason