Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2018, Side 147
123
Meiðyrði í skáldskap skapa því ákveðinn skilgreiningarvanda, sér í
lagi ef greina á hvernig æra einstaklings, sem notaður er sem fyrirmynd
í skáldverki, bíði skaða vegna verksins. Með því að skilgreina texta sem
skáldskap er verið að gefa til kynna að hann feli ekki í sér staðhæfingar um
staðreyndir heldur að allt sem þar komi fram feli í sér gildisdóm. Ekki er
hægt að krefjast sönnunar á staðhæfingum um persónu í skáldsögu þar sem
höfundurinn hefur þá þegar skilgreint staðhæfinguna ósanna með því að
fella textann innan ramma skáldskaparins. Ef til dómsmáls kemur skiptir
því töluverðu máli hvernig höfundur skilgreinir verk sitt gagnvart almenn-
ingi.8
Bandaríski lögfræðingurinn Richard A. Posner hefur fjallað ítarlega um
þessi efni í bók sinni Law and Literature (Lög og bókmenntir). Hann heldur
því fram að í raun sé rangt að spyrja hvort skáldskapur setji fram sannar
staðhæfingar um heiminn, þar sem skáldið biður lesandann ekki um að
trúa, í heimspekilegum skilningi, heldur að ímynda sér, í listrænum skiln-
ingi. Þess vegna, segir Posner, á skáldskapurinn ekki að þurfa að lúta sann-
leikanum.9 Þar sem meiðyrðamál ganga að miklu leyti út á að sannreyna
fullyrðingar er flókið að fást við skáldskap í slíku samhengi.10 Posner ræðir
einnig um þá hagsmuni sem tekist er á um í meiðyrðamálum og varða
skáldskap. Annars vegar eru hagsmunir sækjandans, sem vill fá að vernda
æru sína (eða sinna) og hins vegar hagsmunir rithöfundarins (og þar með
lesenda hans) til listrænnar tjáningar. Mögulegt er að leggja mat á áhrif
ærumeiðinga á líf fólks, svo sem vinnutap, félagslega einangrun, kvíða, og
svo framvegis. Mun erfiðara er að leggja mat á hve mikið bókmenntaverk
myndi tapa á því ef þættir, sem álitnir eru ærumeiðandi, yrðu teknir út.11
Þessa togstreitu má greina í umræðu um bók Hallgríms Helgasonar, Konan
við 1000°, það er hvort vegi þyngra neikvæð áhrif sögunnar á aðstandend-
ur fyrirmyndarinnar eða frelsi höfundarins til að skrifa eigið verk.
8 Lesendur kannast ef til vill við klausu sem birtist gjarnan bæði í bókmenntaverkum
og kvikmyndum: „Persónur og söguþráður eru skáldskapur og vísa á engan hátt til
fyrirmynda í raunveruleikanum.“
9 Richard A. Posner, Law and Literature, Cambridge, Massachusetts: Harvard Uni-
versity Press, 2009, bls. 512.
10 Sama heimild.
11 Sama heimild, bls. 510.
SAnnAR ÍSLEnSKAR SöGUR?