Andvari - 01.01.1980, Side 65
ANDVARI
SVÍNASKÁLABÓNDI SEGIR TÍÐINDI
63
hverju skotfærunum var ábótavant. Þeir hafa selt allt rengið landsmönnum, og
enda flutt á gufuskipinu til þeirra, sem beiðst hafa.“
Þrátt fyrir allan þann fjölda hvala sem skotinn var og ekki náðist, var þetta
talið dágott aflasumar, og gerðu eigendur sér vonir um bærilegan afrakstur, ef
ekkert sérstakt kæmi fyrir. En nú steðjuðu óhöppin að. Hinn 7. október hafði
Norðanfari þessar fréttir að færa:
„Nóttina milli þess 12. og 13. f. m. hafði á Seyðisfirði komið, sem hér, mikið
norðanveður, sem sleit upp tvö skip hvalaveiðimannsins Roys, fyrst gufuskipið,
er rak að landi niður undan Vestdal, hvar brotnaði gat á það og fylltist af sjó;
skipverjar, sem allir voru syndir, fengu með herkjum bjargað sér í land. Hitt
skipið var nýkomið frá Englandi hlaðið með kol; það rak upp að gufuskipinu
og sökk þar á kaf framan við marbakkann. Mennirnir komust með illan leik,
sumir hálfnaktir, því allir höfðu verið í sofum, upp á hitt skipið og svo í land.
Kolaskipið hafði verið ábyrgt, en hitt ekki.“
Enn segir í bréfi til Norðanfara, rituðu í nóvembermánuði:
„Hvalaveiðimennirnir á Vestdalseyri eru nú nýfarnir til Englands. . . . Aldrei
varð af því, að þeir bræddu rengi og þvesti í sumar eða möluðu hvalbein, því
bræðslu- og mölunarvélin, sem þeir bjuggu um í einni Vestdalseyrar búðinni,
dugði þeim ekki svo vel. Bræddu þeir jafnan hval sinn úti á skipi í kötlum.
Allmikill matur hefur komið af hvölum þeirra í sveitirnar; þó hefur ógrynni
þvesti, innyfli og beinaskurður að engu orðið, úldnað og drafnað niður í fjöruna
í Seyðisfirði eða flækst út um allan sjó; hafa sveitarmenn eigi komist yfir að
nýta sér þetta í tíma, þó eigendur hefðu leyft, og því síður menn í fjarlægum
sveitum um hjálpræðistímann.“
VI
Þrátt fyrir áföllin í vertíðarlok 1865 voru þeir Roys og Lilliendahl ekki af
baki dottnir. Nú undirbjuggu þeir næstu vertíð og höfðu stærri áform á prjón-
unum en nokkru sinni fyrr. Að þessu sinni skyldu þrjú gufuskip stunda veiðarn-
ar frá Seyðisfirði. Liteno var tréskip, fyrrverandi skonnorta, sem breytt hafði
verið í gufuskip. Og í Glasgow hlupu af stokkunum tvö járnskip, búin gufuvél-
um, Steypireyður og Vigilant, bæði nákvæmlega eins, smíðuð eftir sömu
teikningu. Síðastnefnda skipið var eign útgerðarfélagsins Henderson, Anderson &
Co. í Liverpool, en skipstjóri var Henry Roys og skipið rekið sem hluti af
hvalveiðiútgerð Bandaríkjamanna á Seyðisfirði. Öll sigldu skip þessi undir dönsk-
um fána.
Af heimildum virðist mega ráða, að hvalveiðiskipið Reindeer hafi ekki komið
til Seyðisfjarðar árið 1866. Ætlunin virðist hafa verið að bræða spikið jöfnum
höndum í bræðslunni í landi og um borð í skipunum Steypireyði og Vigilant.
Sett hafði verið upp í þeim báðum mjög kostnaðarsöm gufubræðsla, sem mun