Andvari - 01.01.1937, Blaðsíða 62
58
Fiskirannsóknir
Andvari
minni fyrir árin 1927—28, þar sem ég taldi veiðarfæri
þetta (kola-dragnótina) frá fiskifræðilegu sjónarmiði séð
áhrifalítið á sjávarbotninn og meinlaust fyrir ungviði, ef
það væri brúkað með gætni. Einnig má nefna sjófiska-
klak (sjá Andv. XLIX. bls. 110).
A tímabili því, sem minni mitt nær yfir, eða frá
því laust eftir 1870, hafa orðið næsta stórfelldar breyt-
ingar á flestu því, er snertir fiskveiðar vorar í sjó, á
veiðiaðferðum og veiðitækjum (skipum og veiðarfærum),
á verkun aflans, markaðs- og sölumálum og á skoðunum
fiskimanna og alls almennings á lífi nytjafiskanna og
öflum þeim, sem mestu ráða þar um, enda þótt einstaka
»eftirlegukindur« séu enn til, sem öll fræðsla síðari ára
virðist ekki hafa haft hin minnstu áhrif á. Væri ærin
ástæða til að fara nokkuð fleiri orðum um þessi atriði,
en rúmið leyfir ekki, að neitt geti orðið úr því í þetta
sinn, og því miður ekki auðið að vísa í fiskveiðasögu
vora um þessi ár, því að hún er óskráð enn. Þeim sem
skilja þýzku má vísa í rit mitt: Die Islándische Seefisch-
erei, Stuttgart 1930, þar sem hún er sögð í stuttu
máli.1)
í yfirliti mínu í skýrslunni 1921—22 fór ég nokkurum
orðum um framtíð fiskirannsókna vorra og skal ég því
aðeins taka það fram hér, að vér höfum þó fært kví-
arnar verulega út, þar sem bætt hefir verið ungum og
vel menntuðum starfsmönnum, bæði á sjó og landi, ef
svo mætti segja. Fiskifélagið reið þar á vaðið og nú er
í ráði, að háskólinn taki rannsóknirnar á sína arma og
má þeim þá teljast vel borgið, því að mikið fé munu
þær kosta, ef verulegur myndarbragur á að vera á
þeim.
1) Rit þetta er kaflinn um ísland í hinu mikla ritsafni Hand-
buch der Seefischerei Nordeuropas, Bd. VII. H. 4.