Uppeldi og menntun - 01.01.2000, Síða 156
KENNING O G STARF i STARFSMENNTUN
legum úrlausnarefnum sem eru einstök sinnar tegundar. Eftir hverjum á að apa
þegar breyta skal rétt á sviði erfðatækni og erfðavísinda?
Ef ýta skal undir siðferðilegan þroska hjá fólki í sérhæfðum greinum þarf fleira
að koma til en gott fordæmi. Það sem einkum virðist mikilvægt er að sporna gegn
þeirri þröngu tæknihugsun sem sífellt mæðir á (og oft af brýnni nauðsyn) við þá
þjálfun sem lýtur að tæknilega þættinum. Heimspekingurinn Sidney Hook kemst
svo að orði að í sífellt auknum mæli sé „hugsun orðin að hugsun á sérhæfðum svið-
um, oftast fagsviðum, og þessari hugsun fylgir sú tilfinning að fyrir utan þetta svið
skipti engu máli hvernig ályktanir eru dregnar, eða sú tilfinning að hvaða tvær
ályktanir sem er séu jafngildar."12 Mótvægið gegn slíkri tæknihugsun fæst ekki með
því að ástunda greinar sem talið hefur verið að „þjálfi heilann", svo sem latínu og
stærðfræði, heldur miklu frekar með því að beina athyglinni að víðari sviðum.
Þessum tilgangi þjónar kennsla í tungumálum, bókmenntum, sögu, fræðum og
vísindum þeirra sjálfra vegna, og þjálfun í því að taka umræður og hugmyndir líð-
andi stundar til gagnrýninnar skoðunar. Ástundun greina af þessu tagi er hluti af
starfsmenntun vegna þess að hún ýtir undir siðferðilegan þroska og getu fagmann-
eskjunnar til að starfa vel, ekki bara af tæknilegri getu heldur einnig af siðferðilegri
réttsýni.
LOKAORÐ
Starfsmenntun felst í þroska faglegra dygða; þeirra eiginleika sem gera einstakling
að góðri fagmanneskju. Góð fagmanneskja hefur siðvit til að meta af skynsemi þau
markmið sem störf hennar þjóna og hún er fær í að ná þeim markmiðum sem hún
setur sér.
Verkleg þjálfun er að sjálfsögðu ómissandi, eigi siðvitið og tæknilega færnin að
þroskast. Hvort tveggja krefst ávana og góðra fyrirmynda.
Bóklegt nám er þó ekki síður nauðsynlegt. Siðferðileg dómgreind fagmann-
eskju krefst víðsýni, til að geta litið á starfsgreinina frá ýmsum sjónarhornum og
ræktað með sér skilning á hlutverki sínu sem fagmanneskju. Slíka víðsýni má reyna
að ýta undir með ýmsum leiðum, en þó varla með neinni töfraformúlu. Án efa er
brýnt að nemandinn fái tækifæri til að kynna sér og íhuga þá menningu og sam-
félag sem starfsgreinin er hluti af, hugi að sögu og sjálfsskilningi starfsgreinarinnar
og verði fær um að taka þátt í starfi fagfólks úr ólíkum menningarheimum. Bóklegt
nám í sögu, tungumálum, bókmenntum og félagsfræðum geta því gegnt mikilvægu
hlutverki.
Bóklegt nám er einnig ómissandi þáttur í að efla tæknilega þáttinn. Fagmann-
eskjan þarf að geta brugðist við breytilegum aðstæðum, tileinkað sér nýja tækni, að-
ferðir og hugmyndir og jafnvel tekið þátt í mótun nýrrar þekkingar og tækni. Nem-
endur í starfsgreinanámi þurfa þess vegna að læra mun fleira en þau vinnubrögð
sem tíðkast á hverjum tíma. Jafnframt getur traust þekking á þeim staðreyndum og
12 Sidney Hook, „Education for Modem Man", í Steven M. Cahn, Classic and Contemporary Readings in the
Philosophy ofEducation, McGraw-Hill 1997, s. 488-498,493.
254