Hugur - 01.01.2002, Side 41
Hugur, 12.-13. ár, 2000-2001
s. 39-53
W.V. Quine
Merking og sannleikur
Þegar einhver segir satt, hvað er það þá sem gerir fullyrðinguna sanna?
Við segjum gjarnan að það séu tveir þættir sem þessu ráði, merking og
staðreynd. Þjóðverji fullyrðir: „Der Schnee ist weiss“, og segir þar með
sannleikann þökk sé tveimur þáttum sem tvinnast snyrtilega saman:
setningin merkir að snjór er hvítur og það vill svo til að snjór er í raun
hvítur. Hefði merkingin verið önnur, hefði ‘weiss’ þýtt grænt, þá hefði
Þjóðverjinn ekki sagt sannleikann og ef staðreyndin væri önnur, ef snjór
væri rauður, þá hefði hann heldur ekki sagt sannleikann.
Þetta hljómar eflaust eins og sjálfsagður hlutur, en á sama tíma má
hér sjá hvimleið merki um heimspekilegt bruðl. Þjóðverjinn segir „Der
Schnee ist weiss’ og það er hvítur snjór allt í kring, látum það gott heita.
En verðum við að halda áfram og vísa til óáþreifanlegra hluta sem liggja
þarna á milli, merkingar og staðreyndar? Merking setningarinnar er að
snjór er hvítur, og staðreyndin er að snjór er hvítur. Merking setningar-
innar og staðreyndin eru söm, eða þau hafa að minnsta kosti sama nafn:
að snjór er hvítur. Og það virðist vera vegna þessarar samsemdar, eða
samnefnis, að við getum sagt að Þjóðverjinn hafi sagt satt. Merking þess
sem hann segir fellur að staðreyndinni.
Þetta minnir á samsvörunarkenningu um sannleikann, en sem kenn-
ing er þetta tómt orðagjálfur. Samsvörunin er einungis á milli tveggja
óáþreifanlegra hluta sem við höfum skírskotað til sem milliliða á milli
þýsku setningarinnar og hvíts snjávarins.
Nú kynni einhver að segja að ég taki þessa skírskotun til milliliðanna
alltof bókstaflega. Hann kynni að andmæla og halda því fram að þegar
sagt er að merking eigi þátt í að það sem Þjóðveijinn sagði var satt, þá
sé einungis verið að segja á myndrænan hátt nokkuð sem enginn getur
andmælt, nefnilega að ef orðið ‘weiss’ væri notað í þýsku um græna hluti
en ekki hvíta, þá hefði það sem Þjóðveijinn sagði um snjóinn verið
39